Stálu einkanúmerum af bílum

Þrír eigendur bifreiða með einkanúmer tilkynntu til lögreglunnar á Akureyri um helgina að númerin hefðu verið tekin af bifreiðunum. Lögreglan segist ekki hafa verið þarna að verki enda bifreiðarnar skoðaðar og tryggðar eins og reglur segja til um. Þarna hafi einhverjir óprúttnir náungar ágirnst númerin í einhverjum óljósum tilgangi og tekið þau.

Þetta kemur m.a. fram í dagbók lögreglunnar eftir helgina. Segir lögreglan að helgin hafi farið að mestu leyti vel fram og engin stórtíðindi gerðust. Fimm umferðaróhöpp urðu, flest smávægileg, og engin slys á fólki. Á föstudaginn missti ökumaður vald á bifreið sinni í mikilli hálku og ísingu á Ólafsfjarðarvegi við Hörgárbrú. Snerist bifreiðin á veginum og slengdist utan í handriðið beggja vegna. Varð bifreiðin óökufær eftir en engin slys urðu á fólki.

Á laugardag missti ökumaður á leið norður Hörgárbraut vald á bifreiðinni er hann var að skipta um rás í útvarpstækinu. Fór bifreiðin útaf og varð óökuhæf. Vill lögreglan árétta að það sé ekki bara farsímanotkun sem sé hættuleg í akstri heldur hvað eina sem beini athygli ökumannsins frá akstrinum eins og að skipta um rás í útvarpstæki eða setja geisladisk í geislaspilarann.

Næturlíf helgarinnar var hefðbundið og fór að mestu vel fram að sögn lögreglu. Þó þurfti lögreglan nokkrum sinnum að hafa afskipti af samkomugestum vegna ölvunar og slagsmála og fjarlæga þá af staðnum. Voru tvær líkamsárásir kærðar en meiðsl voru minniháttar í báðum tilvikum. Eitt fíkniefnamál var fært til bókar en þar var um að ræða tól og tæki til fíkniefnaneyslu en ekki efni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert