Nærri þriðjungur presta er konur

Karl Sigurbjörnsson biskup vígði þrjár konur til starfa á vegum Þjóðkirkjunnar í gær. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir og Arna Grétarsdóttir voru vígðar til prests og Magnea Sverrisdóttir var vígð til djáknastarfa. Konum í prestastétt hefur fjölgað talsvert síðustu árin og eru nú nærri þriðjungur.

Ragnheiður Karítas var vígð sem sóknarprestur til Ingjaldshólsprestakalls á Snæfellsnesi. Hún lauk námi árið 1999 en hefur síðan verið við nám og störf erlendis og hérlendis.

Arna Grétarsdóttir var vígð sem sóknarprestur til Seltjarnarnesprestakalls en hún lauk námi fyrir ári og hefur starfað sem æskulýðsfulltrúi í Seltjarnarneskirkju.

Magnea Sverrisdóttir var vígð til djákna í Hallgrímskirkju en hún hefur nýlega lokið námi. Magnea hefur starfað undanfarin ár sem æskulýðsfulltrúi í Hallgrímskirkju og mun áfram gegna svipuðu starfi.

Séra Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur lýsti vígslunni en vígsluvottar voru séra Ingiberg J. Hannesson prófastur, séra Jóhanna Sigmarsdóttir, séra Sigurður Grétar Helgason, séra Sigurður Pálsson og Þórdís Ásgeirsdóttir djákni.

Að sögn Jóns Helga Þórarinssonar, formanns Prestafélags Íslands, hefur kvenprestum fjölgað töluvert síðastliðinn áratug. "Það eru bráðum 30 ár síðan fyrsta konan var vígð til prests og núna er staðan sú að yfir helmingur nemenda í guðfræði er konur. Hlutfall kvenna í prestastéttinni er að nálgast þriðjung," segir Jón Helgi og bendir á að söfnuðirnir hafi úrslitavald um ráðningu presta. Prestar eru í dag um 150. "Í auglýsingum frá biskupsstofu er alltaf tekið fram að konur séu sérstaklega hvattar til að sækja um í samræmi við jafnréttisáætlun kirkjunnar."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert