Ástþór Skúlason kominn heim á Rauðasand

Ástþór Skúlason.
Ástþór Skúlason. mbl.is

Ástþór Skúlason fór um helgina aftur heim til sín á Melanes á Rauðasandi eftir fimm mánaða endurhæfingu á Grensásdeild í Reykjavík. Hann lamaðist fyrir neðan mitti þegar bíll hans fór fram af háum fjallvegi í Bjarngötudal í febrúar sl. Það varð honum til lífs að lenda á stórum steinhnullungi svo höfuðið vísaði niður og blóðið frá innvortis meiðslum rann upp úr honum.

Í samtali við Morgunblaðið segist Ástþór ætla að reyna allt til að geta haldið áfram búskap. Það séu forréttindi að geta lifað af því. Þó enginn gerist bóndi til að verða ríkur þá séu þeir ríkir af svo mörgu öðru en fjármagni.

Hann þarf að yfirstíga margar hindranir í þessari viðleitni sinni; fjármagna breytingar á híbýlum og útihúsum, komast reglulega til læknis og viðhalda líkamlegum styrk og síðast en ekki síst halda viljanum og lífsþróttinum gangandi.

„Þar sem ég fór ekki í vetur þá vil ég meina að mér sé eitthvað ætlað og ég eigi ýmsu ólokið," segir Ástþór og minnir á að hlutunum verði ekki breytt úr því sem komið er. Það verði að gera það besta úr því sem eftir er.

Í návist við stórbrotna náttúru og iðandi dýralíf fær hann líka lífsþróttinn. Á Rauðasandi ætlar hann að vera þótt fjölskyldan verði að bregða búi. Komi til þess verður hann að horfa á aðra möguleika til tekjuöflunar. Hann getur hugsað sér að auka við menntun sína með hjálp tölvunnar, stunda smíðar í járn og tré eða nýta sér vaxandi ferðamannastraum. Að auki hefur hann ánægju af því að teikna og mála.

„Ég hef margt að lifa fyrir þó ég sé lamaður. Það þarf enginn að gefa upp alla von þó hann lamist," segir Ástþór Skúlason.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert