Fáar aðferðir betur til þess fallnar en forvarnir að efla heilsuna

Sigurður Guðmundsson, landlæknir, segir í ritstjórnargrein í Læknablaðinu að sannað sé með traustum rannsóknum að gagnsemi forvarna og heilsueflingar sé veruleg. Tíma lækna og heilbrigðisstarfsfólks sé vel varið í því að sinna forvörnum og líta verði á það sem skyldu lækna að fjalla um þessi mál ábyrgt og upplýsa sjúklinga okkar og almenning allan um óumdeilda gagnsemi, þannig að ákvarðanir byggi á upplýstu vali. Til langframa séu líklega fáar aðferðir betur til þess fallnar að efla heilsu manna.

Sigurður segir, að undanfarið hafi verið teflt fram umdeildum sjónarmiðum sem fram hafi komið í nálægum löndum um að forvarnir leiði til oflækninga og hafi þeim jafnvel verið líkt við faraldur en það orð tengja flestir einhverju böli eða fári.

Sigurður fjallar um árangur sem orðið hafi hér á landi af skimun á krabbameini í leghálsi, brjóstum og ristli, og segir hann m.a. að á grundvelli ýmissa upplýsinga hafi niðurstaða flestra orðið sú að gagnrýni á skipulagða leit að brjóstakrabbameini sé óréttmæt og ekki byggð á haldbærum rannsóknum eða rökum.

Sigurður segir einnig, að á Vesturlöndum hafi allmikið verið fjallað um mörk óttans þegar litið sé til skimprófa. Réttilega hafi verið bent á að ótti og kvíði geti komið fram vegna falskt-jákvæðra prófa og einnig meðan beðið sé endanlegrar greiningar með staðfestingarprófum. Ekki séu til miklar rannsóknir um raunverulega heilsubælandi áhrif þessa en mikilvægt sé þó að gera sér grein fyrir honum en jafnframt nauðsynlegt að benda á að upplýsing og þekking sé ein besta vörn gegn ótta. Skimpróf verði alltaf að vera háð vali einstaklinga og séu þau byggð á traustum rannsóknum sé sú skylda lögð á herðar lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks að upplýsa fólk um þau, kosti þeirra og galla.

Grein Sigurðar Guðmundssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert