Tillaga um aðildarviðræður við ESB vekur athygli í Noregi

Tillaga um að hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem liggur fyrir flokksþingi Framsóknarflokksins, hefur vakið talsverða athygli í Noregi. Norska fréttastofan NTB segir að þessi tillaga hafi vakið undrun á Íslandi.

Haft er eftir Ólafi Harðarsyni, prófessor í stjórnmálafræði, að það sé áhugavert hvernig tillagan kemur fram en óljóst sé hvaða afdrif hún hljóti á flokksþinginu. Verði hún hins vegar samþykkt þar yrðu það veruleg tíðindi.

Fram kemur komið í dag, að tillögudrögin voru samin af umræðuhópum en forusta Framsóknarflokksins kom þar hvergi nærri. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld, að slík tillaga, yrði hún samþykkt, gengi gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert