Risinn tekinn í notkun í Kaplakrika

Risinn úr lofti.
Risinn úr lofti.

Íþróttafélagið FH í Hafnarfirði tók í dag í notkun nýtt og glæsilegt knatthús í Kaplakrika sem hlotið hefur nafnið Risinn. Húsið er tæpir 3.000 fermetrar að flatarmáli og rúmar 45x66 metra gervigrasvöll. Guðmundur Árni Stefánsson, formaður knattspyrnudeidlar FH, bauð gesti velkomna við vígslu hússins en ávörp fluttu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, tilkynnti nafn hússins fyrir hönd styrktaraðila byggingarinnar en þeir eru Actavis, Eimskip og Landsbankinn.

Framkvæmdir við húsið hófust 15. október síðastliðinn en tafir urðu á jarðvinnu vegna flutnings hitaveituæðar sem lá um byggingarstaðinn og óhagstæðs veðurs. Grunnurinn var tilbúinn í mars og var þá þegar hafist handa við að reisa sjálft húsið.

Helstu verktakar við byggingu Risans voru Fjarðargrjót, sem sá um jarðvinnu, Fjarðarmót, sem sá um mótasmíði og steypuvinnu, Suðurlist, sem sá um að reisa húsið ásamt fulltrúum frá framleiðanda, Gaflarar, sem sáu um rafmagn, og Sport-Tæki, sem lögðu gervigrasið. Allir verktakar utan sá síðastnefndi eru hafnfirskir.

Hugmyndin að nafni knatthússins fæddist meðal FH-inga með tilvísun í að risi í íslenskri knattspyrnu sé vaknaður en FH-ingar eru handhafar Íslandsmeistara-titilsins í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Fyrstu formlegu kappleikir í Risanum verða á Þórismótinu á laugardag og sunnudag en mótið er haldið í minningu Þóris Jónssonar, fyrrverandi formanns knattspyrnudeildar FH, sem lést af slysförum í fyrra. Á mótinu munu yngstu flokkar FH og Hauka eigast við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert