Félagsmálanefnd kallar eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á Íbúðalánasjóði

Félagsmálanefnd Alþingis hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á Íbúðalánasjóði í ljósi breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði hér á landi. Var þetta ákveðið á fundi nefndarinnar sem lauk fyrir stundu. Samningar Íbúðalánasjóðs við bankana um lán upp á 80 milljarða voru afhentir á fundinum en búið var að taka tölur, um vexti og lánakjör, út. Á fundinum kom fram að Íbúðalánasjóður fær 400 milljónum króna meira á ári út úr því að lána bönkunum en að leggja fé inn í Seðlabankann.

Nefndin fékk til sín hóp sérfræðinga á fundinn, m.a. fá Íbúðalánasjóði, félagsmálaráðuneytinu, Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja, Ríkisendurskoðun, Félagi fasteignasala og Samtökum atvinnulífsins. Fundurinn var haldinn vegna umræðu um samning Íbúðalánasjóðs við bankana um að sjóðurinn láni þeim 80 milljarða króna. Er það hluti af fé sem sjóðurinn hefur fengið til baka frá fólki sem hefur tekið húsnæðislán frá bönkunum og greitt með þeim upp lánin sem það hafði frá sjóðnum.

„Við höfum ákveðið að kalla eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á Íbúðalánasjóði í ljósi mikilla breytinga á fjármálamarkaðnum síðan í ágúst í fyrra,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, formaður félagsmálanefndar, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Sagði hún fundinn hafa verið langan og góðan og eftir að hafa farið yfir málið með fjölda aðila hafi nefndin komist að þessari niðurstöðu.

Sagði hún að sátt hefði verið um þessa niðurstöðu, fulltrúar Íbúðalánasjóðs og Félagsmálaráðuneytisins hefðu ekki haft neitt við hana að athuga.

Jóhanna Sigurðardóttir segist sátt við niðurstöðuna

Jóhanna Sigurðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, sagðist vera sátt við niðurstöðuna en Jóhanna óskaði eftir fundinum. „Já, ég er sátt við þá niðurstöðu að það fari fram úttekt á Íbúðalánasjóði. Ég tel hafa komið fram á þessum fundi að lánasamningarnir standa á ótraustum lagagrundvelli og tel ástæðu til að skoða það sérstaklega. Ég tel að sú áhætta sem Íbúðalánasjóður er að taka með þessum lánum sé óásættanleg því sjóðurinn tekur alla ábyrgð ef ekki er staðið í skilum. Það verður að skoða þetta mál betur í heild sinni ef á að halda þessum lánasamningum.“

Hún segist telja að sérstaklega þurfi að skoða þá hlið sem snýr að ríkisábyrgð lánanna. Þar standi fullyrðing gegn fullyrðingu, Íbúðalánasjóður haldi því fram að ekki sé ríkisábyrgð á lánunum en lánasýslan segi að svo sé.

Á fundinum kom fram að lánakjörin sem Íbúðalánasjóður fær séu betri með því að lána bönkunum en með því að leggja féð til Seðlabankans. Séu vextirnir hjá bönkunum hálfu prósenti hærri sem gerði það að verkum að sjóðurinn fær fær 400 milljónum króna meira á ári út úr því að lána bönkunum en fyrir að leggja fé inn í Seðlabankann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert