Ný könnun: 43% Íslendinga vilja í ESB

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AP

Litlar breytingar hafa orðið á afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu, að því er fram kemur í nýrri könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins (SI). 43% svarenda í könnuninni sögðust hlynntir aðild að ESB, en 37% lýstu sig andvíga aðild, að því er fram kem á vef SI.

Þar segir að þessi könnun sé sú fyrsta sem gerð er eftir að ný stjórnarskrá ESB var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi. Svo virðist sem hræringarnar innan ESB hafi ekki haft mikil áhrif á afstöðu fólks til aðildar.

„Þegar spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu sögðust 43% svarenda hlynnt, 37% andvíg en 20% hvorki hlynnt né andvíg,“ segir á vef SI. Þar segir að í könnunum síðustu fimm ára hafi stuðningur við aðild að ESB hæst farið í 52%, en það var í febrúar árið 2002. Minnstur var stuðningurinn í febrúar ári síðar, eða 36%. „Að sama skapi reis andstaðan við aðild hæst í 48% í febrúar 2003 en varð minnst 25% í febrúar 2002.“

Meirihluti vill ekki taka upp evru

Í könnuninni var fólk spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sögðust 55% svarenda hlynnt, 30% andvíg en 15% hvorki hlynnt né andvíg. Segja SI að þeim sem eru hlynntir því að taka upp aðildarviðræður hafi fækkað nokkuð á síðustu misserum.

„Þegar spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar sögðust 54% svarenda andvíg því, 37% hlynnt því en 9% hvorki hlynnt né andvíg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert