Talið að um 45-50.000 manns hafi verið í miðborg Reykjavíkur

Lögregla telur að um 45.000 manns hafi verið í miðborginni …
Lögregla telur að um 45.000 manns hafi verið í miðborginni þegar mest var. mbl.is/Júlíus

Lögreglan í Reykjavík telur að um 45-50.000 manns hafi verið í miðborg Reykjavíkur þegar mest var í tengslum við hátíðahöld í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá kvennafrídeginum árið 1975. Þrátt fyrir mannfjöldann gekk allt áfallalaust fyrir sig og og þótt umferð hafi gengið hægt komust allir leiðar sinnar að lokum.

Á sjötta tímanum er mikil umferð út úr miðborginni

Mikil stemmning var á baráttufundi, sem haldinn var á Ingólfstorgi nú síðdegis. Meðal þeirra sem fluttu ávarp var Amal Tamimi sem talaði fyrir hönd Samtak kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Sagði hún, að konur af erlendu bergi brotnar á Íslandi væru í tvöföldum áhættahópi: „Við búum við misrétti vegna þjóðernis og kyns," sagði Amal og bætti við að stærsta hindrunin væri að íslenskukunnáttuna vantaði og margar þeirra ættu mjög erfitt með að þekkja skyldur sínar og réttindi á vinnumarkaði.

„Okkar konur fá ekki bara minni laun en karlmenn með sömu menntun og í sama starfi. Oft fá þær menntun sína ekki viðurkennda. Erlendum ljósmæðrum eða hjúkrunarfræðingum er velkomið að vinna sömu vinnu og íslenskar starfssystur sínar en fyrir það fá þær borgað sem sjúkraliði," sagði Amal.

Marín Þórsdóttir og Kristrún Björg Loftsdóttir fluttu ávarp fyrir hönd heildarsamtaka launþega og sögðu m.a., að þær bæru blendnar tilfinningar til dagsins í dag. Annars vegar væri stórkostlegt að sjá hversu mikil samstaða sé í þjóðfélaginu um að gera betur og leiðrétta þann mismun sem finnist í samfélaginu. Hinsvegar væru það vonbrigði að þrjátíu árum eftir kvennafrídaginn 1975 sé enn full ástæða til að fjölmenna á útifundi og benda á þá staðreynd að jafnrétti hefur enn ekki verið náð. „Enn í dag þurfum við að leggja niður störf til að vekja athygli á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir atvinnulíf og samfélag," sögðu þær.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, fulltrúi kvennahreyfingarinnar, sagði í ávarpi að hægt væri að útrýma launamun fyrir sömu störf strax á morgun með því að afnema launaleynd.

„Launakannanir hafa sýnt að hér ríkir launamisrétti fyrir sömu störf en kannanir hafa líka sýnt að meirihluti kvenna telur að launamisréttið sé á öðrum vinnustöðum en ekki þeirra. Hversu margar konur hér í dag geta sagt með fullri vissu að maðurinn sem vinnur við hliðina á þeim sé ekki með hærri laun en þær? Við getum það ekki ef við vitum ekki hvað hann er með í laun.

En afnám launaleyndar leysir aðeins hluta vandans. Eftir stendur að við þurfum að leysa þann launamun sem er á milli hefðbundinna kvenna- og karlastétta, skiptingu heimilisstarfa og annarra þátta sem hafa áhrif á starfsval kvenna og karla og stöðu kynjanna í samfélaginu," sagði Katrín Anna.

Lögregla telur að um 45.000 manns hafi verið í miðborginni …
Lögregla telur að um 45.000 manns hafi verið í miðborginni þegar mest var. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert