Risagullfiskur í tjörn við Húsavík

Fyrsti afli Húsvíkinga kom á land á nýársdag og var ekki um hefðbundna hafnarlöndun að ræða. Gaukur Hjartarson fann sem sé á fyrsta degi ársins heljarmikinn gullfisk í efri tjörninni við Orkustöðina og reyndist fiskurinn vera 34 sentimetrar á lengd og 850 grömm að þyngd. Þetta kemur fram á þingeyska vefnum skarpur.is.

Að sögn Hreins Hjartarsonar hjá Orkuveitunni, var 5-7 fiskum af þessari tegund sleppt í tjörnina í október fyrir rúmu ári og virðast þeir hafa dafnað vel í volgri tjörninni. Hann vissi ekki hvort hinir fiskarnir væru enn við hestaheilsu, en það væri allavega nóg af skrautfiskum af tegundinni fangasíklíður, sem eru búnir að vera þarna í tjörninni enn lengur og hafa fjölgað sér mikið.

Fiskarnir eru ekki fóðraðir heldur lifa eingöngu á því sem náttúran færir þeim og norðlenskur vetur virðist ekki hafa haft áhrif á þá, að því er fram kemur á skarpur.is

Á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur eru sleppingar á gullfiskum í tjörnina harðlega gagnrýndar. Kemur þar fram að harðar reglur gilda um innflutning á fiski til eldis hérlendis, „en ljóst er að innflutningur á skrautfiskum þarfnast endurskoðunar. Líkt og við sjáum í fyrrgreindu tilviki frá Húsavík virðast vera til þeir menn sem sjá ástæðu til að sleppa skrautfiskum í náttúru landsins án þess að hafa nokkra hugmynd um afleiðingar þess.

Skemmst er að minnast þeirrar gríðarlegu plágu sem herjaði á meginlandi Evrópu þegar að rótarlaus gróður úr skrautfiskabúrum barst út í náttúruna. Varð plágan þvílík að skipaskurðir stífluðust," að því er segir á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

Vefur Stangaveiðifélags Reykjavíkur

Vefur Landsambands veiðifélaga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert