Strætó tekur í notkun metanvagna

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, fyllti á eldsneytistank nýs metanknúins almenningsvagns …
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, fyllti á eldsneytistank nýs metanknúins almenningsvagns Strætó bs. í dag.

Strætó bs. kynnti í dag tvo nýja almenningsvagna, sem ganga fyrir metani. Þar með hefur fyrirtækið stigið enn eitt skrefið í þá átt að draga úr útblástursmengun á höfuðborgarsvæðinu en Strætó bs. hefur áður tekið þátt í tilraunum með vetnisknúna strætisvagna hér á landi.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að metanknúnar bifreiðar séu í senn afar umhverfisvænar og hagkvæmar í rekstri. Þannig sé koltvísýringsútblástur 113 bifreiða, sem nota metan, jafn mikill og frá einni bifreið, sem gengur fyrir bensíni eða díselolíu. Metanið sé að auki alla jafna um 30% ódýrara en bensín.

Metanið sem Strætó bs. notar á vagna sína er unnið úr sorpinu á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. Samhliða kynningu Strætó bs. á nýju metanvögnunum kynnti Metan hf., dótturfyrirtæki Sorpu bs., nýja og mun afkastameiri hreinsistöð fyrir metangas. Þar er nú þegar geta til þess að framleiða metan á um 4.000 smærri bifreiðar á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert