Grímseyingar skoða mögulegan kvótamissi

Eftir Berg Ebba Benediktsson bergur@mbl.is
SVEITARSTJÓRN Grímseyjarhrepps hefur nú til skoðunar mögulegt brotthvarf kvóta að andvirði allt að tveggja milljarða króna. Útlit er fyrir að feðgarnir Óli Hjálmar Ólason og Óli Bjarni Ólason muni hætta rekstri útgerðarfélags síns í eynni.

"Við erum með málið í skoðun," segir Brynjólfur Árnason, oddviti sveitarstjórnarinnar.

Sveitarstjórnin lét sjávarútvegsráðuneytið gera úttekt á því hversu stór hluti af heildarafla eyjunnar væri hugsanlega á förum. Kvótinn nemur um 1.300 þorskígildistonnum. "Þetta eru eitthvað á milli 41-42% af heildarafla. Um helmingurinn af því hefur komið til löndunar hér en ekkert af því til vinnslu," segir Brynjólfur.

Ljóst er að hér er um stórt hlutfall að ræða en Brynjólfur segir að meta verði áhrifin heildstætt. "Við þurfum ekki allt þetta magn þannig séð," segir Brynjólfur.

Kanna möguleika á byggðakvóta

Enn er ekki ljóst hvort kvótinn verði seldur burt frá eynni eða hvort aðrir útgerðarmenn staðarins sjái sér hag í að kaupa hann. Fari hann á brott er hins vegar útlit fyrir að sveitarstjórnin sæki um úthlutun byggðakvóta frá sjávarútvegsráðuneytinu. Byggðakvóti er veittur sveitarfélögum sem misst hafa kvóta eða hafa orðið fyrir aflabresti.

Miðað við reglugerð sjávarútvegsráðherra um byggðakvóta fyrir þetta fiskveiðiár getur byggðarlag ekki fengið meira en 150 þorskígildistonn vegna samdráttar í atvinnugreininni, líkt og gæti orðið í tilfelli Grímseyjar. Tekið er tillit til hlutfalls landaðs afla og unnins afla. Hafi orðið aflabrestur gerir reglugerðin þó ráð fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir allt að 210 tonnum á eitt sveitarfélag.

Á sjötta þúsund tonn árlega

Á þessu fiskveiðiári er rúmlega fjögur þúsund þorskígildistonnum úthlutað frá sjávarútvegsráðuneytinu í byggðakvóta en Byggðastofnun hefur að auki úthlutað um 1.500 tonnum. Grímsey sótti ekki um byggðarkvóta á þessu ári.

Úthlutun byggðakvótans fer fram með þeim hætti að sveitarstjórn byggðarinnar tekur við kvótanum og útdeilir svo til útgerðarfélaga innan sveitarinnar. Sveitarstjórnin getur sjálf sett skilyrði fyrir veitingu kvótans en hliðsjón skal höfð af reglugerð ráðuneytisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert