Samgönguráðherra opnar Selasetur

mbl.is/Jim Smart

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnaði í dag formlega Selasetur Íslands á Hvammstanga. Aðsetur þess er í húsi Sigurðar Pálmasonar þar sem löngum var rekin verslun.

Í Selasetri Íslands má sjá margvíslega muni sem tengjast selveiðum og nýtingu sela, myndir og teikningar af selum og margs konar fróðleik um þær tvær selategundir sem eiga heimkynni við Ísland, landsel og útsel. Einnig er þar fróðleikur um aðra seli sem hingað koma sem flækingar, að því er segir í tilkynningu.

Sturla Böðvarsson flutti ávarp við opnun setursins auk þess sem Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði nokkur orð og kvaðst hafa áhuga á því að Hafrannsóknastofnun kæmi við sögu rannsókna á selum. Skúli Þórðarson, sveitastjóri Hvammstanga, mælti einnig nokkur orð svo og Karl Sigurgeirsson sem sagði fjölskyldu Sigurðar Pálmasonar mjög ánægða með að Selasetur Íslands skyldi hafa fengið inni í húsinu sem hefði verið smekklega og vel endurnýjað. Forstöðumaður Selaseturs Íslands er Hrafnhildur Ýr Vilhjálmsdóttir.

Sturla Böðvarsson sagði meðal annars í ávarpi sínu: „Selurinn hefur verið mikilvægur þáttur í búsetu okkar og Íslendingar hafa nytjað selastofna við landið um aldir. Landselur og útselur hafa veitt birtu og yl í ýmsum skilningi. Þessar nytjar af selnum hafa verið misjafnlega nauðsynlegar eftir árferði og það þótti líka kannski misjafnlega fínt eftir landshlutum eða jafnvel efnahag manna hvort nýting á sel væri aðeins bjargráð fátæka mannsins eða eðlileg nýting og sjálfsögð eins og með aðra dýrastofna okkar. Í seinni tíð hafa kannski tískan og náttúruverndin mest að segja um hvort eða hvernig við nýtum selina.

En við getum verið sammála um að Íslendingar eru ekki lengur háðir því að nýta seli sér til lífsviðurværis. Við getum hins vegar umgengist selina og tilgangur Selasetursins er líka að ýta undir þau einstöku tækifæri sem við höfum á Vatnsnesi til að skoða selina í náttúrulegu umhverfi sínu. Selalátur eru víðast hvar aðgengileg og er mikilvægt í þessu sambandi að við stýrum umferð um þessi svæði og takmörkum rask á viðkvæmum vistkerfum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert