Snjóframleiðsla komin í gang í Hlíðarfjalli

Fjórar snjóbyssur dæla nú snjó efst í hlíðum Hlíðarfjalls.
Fjórar snjóbyssur dæla nú snjó efst í hlíðum Hlíðarfjalls. mynd/Hörður Elís Finnbogason

Þessa dagana er verið að búa til snjó efst í hlíðum Hlíðarfjalls en snjóframleiðslan hófst á mánudag og eru fjórar snjóvélar nýttar til þess líkt og í fyrra. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður á skíðasvæði í Hlíðarfjalli, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að verið sé að nýta það kuldakast sem nú er til framleiðslunnar, en frostið efst í hlíðum fjallsins (í um 8-900 metra hæð), mælist nú vera um fjórar til fimm gráður.

Guðmundur segir að kannski verði hægt að opna fyrir æfingar í einni brekku efst í fjallinu eftir helgina ef veður leyfir. Í framhaldinu verði þá hægt að flytja búnaðinn niður fjallið til þess að hefja snjóframleiðslu þar. Guðmundur segir það fara eftir frostinu hversu mikið sé hægt að framleiða snjó á dag, en því meira sem frostið er því betra.

Sem dæmi má nefna getur hver snjóbyssa notað á bilinu 100 til 600 lítra af vatni við snjóframleiðsluna. Sé frostið á bilinu 10-12 stig þá notar byssan 600 lítra af vatni. Nú nota byssurnar aðeins um 180 lítra, eða er á um 30% afköstum.

Guðmundur segir annars að stefnt sé að því að opna skíðasvæðið ekki síðar en í lok nóvember. „En svo fer það eftir veðri hvað við getum opnað mikið,“ sagði Guðmundur.

Aðspurður segir hann skíðaiðkendur farna að hlakka til að komast á skíði. „Það er komin mikil stemning og fólk er farið að hringja mikið og fylgjast vel með heimasíðunni,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert