SVÞ vill stórátak í vegamálum

Stjórn SVÞ, Samtaka verslunar og þjónustu ,skorar á yfirvöld samgöngumála að hefja þegar í stað undirbúning stórfelldrar uppbyggingar íslenska vegakerfisins.

„Það dylst engum sem ferðast um þjóðvegi landsins að þörf er á átaki til að treysta og bæta vegina. Málið þolir enga bið, - þörf er á þjóðarátaki um betri vegi.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar voru flestar stofnbrautir landsins byggðar um og upp úr 1980 og miðaði hönnun burðarlags þeirra við að vegirnir myndu endast í um það bil 20 ár. Sá tími er nú víðast liðin og umferð um vegina er mun meiri og þyngri en gert var ráð fyrir. Er nú svo komið að vegirnir þola ekki lengur umferðina sem á þeim er. Skert burðarþol og ónóg vegbreidd eru meðal þess sem skapar stöðuga hættu fyrir vegfarendur.

10 ára áætlun
Stjórn SVÞ leggur til að stofnbrautakerfi landsins verði endurnýjað á 10 árum og ætti að stefna að því að slíkt átak geti hafist árið 2008 en þá er spáð að sú þensla sem verið hefur í efnahagskerfinu undanfarin misseri hafi hjaðnað. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er stofnbrautakerfi landsins í dag liðlega 4200 kílómetrar að lengd og er áætlað að það kosti á bilinu 10-20 milljónir króna að styrkja það og leggja nýtt slitlag á hvern kílómetra. Það er því ljóst að um risavaxið verkefni er að ræða sem mun krefjast verulegra fjármuna. Ástæða er til að kanna allar framkvæmdaleiðir m.a. einkaframkvæmd. Stjórn SVÞ telur koma til greina að fjármagna slíkt átaksverkefni að hluta til með erlendum lánum. Ekki er óeðlilegt að komandi kynslóðir sem munu njóta góðs af slíkri vegagerð taki þátt í að greiða fyrir þær. Brýnt að forgangsraða Þegar farið er í svo viðamikið verkefni er brýnt vanda undirbúning og að forgangsraða með tillit til heildarhagsmuna. Meðal brýnustu verkefna við uppbyggingu stofnbrautakerfisins er að mati SVÞ: að leggja 2ja akreina veg í báðar áttir í 60 til 80 km. út frá Reykjavík (Selfoss/Borgarnes). Að byggja upp veginn milli Reykjavíkur og Akureyrar þannig að hann verð 8,5 metra breiður og að aðrir vegir í stofnbrautakerfinu verði 7,5 metra breiðir. Auka þarf burðarþol vegakerfisins í heild og íslenskir vegir gerðir sambærilegir því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Betri vegir fyrir alla. Ekki þarf að fjölyrða um þýðingu greiðra og öruggra samgangna fyrir þjóðfélagið í heild og mikilvægi þeirra fyrir uppbyggingu og rekstur atvinnuvega um allt land. Endurbygging stofnbrauta er því mál sem snertir alla landsmenn, bæði þær kynslóðir sem nú lifa og einnig þær sem á eftir koma. Með þeim hugmyndum sem hér eru settar fram vilja SVÞ- Samtök verslunar og þjónustu leggja sitt af mörkum enda er um þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða hvernig sem á málið er litið," að því er segir í ályktun Samtaka verslunar og þjónustu um íslenska vegakerfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Arnljótur Bjarki Bergsson:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert