Samfylkingin krefst þess að Ísraelsmenn hætti árásum á Palestínumenn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, áttu í dag fund með Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi. Í upphafi fundarins afhentu þær Ingibjörg og Þórunn sendiherranum ályktun þar sem þess er m.a. krafist, að Ísraelsstjórn hætti án tafar hernaðaraðgerðum gegn óbreyttum borgurum í Palestínu og leiti leiða til að leiða deilur til lykta með friðsamlegum hætti.

Í ályktuninni segir m.a. að binda verði enda á hernám svæða Palestínumanna. Samfylkingin hafi ítrekað rætt um málefni Miðausturlanda á Alþingi en flokkurinn styðji Palestínumenn í baráttu þeirra fyrir frelsi og sjálfákvörðunarrétti.

Þá fordæmi Samfylkingin hverskonar ofbeldisverk. Flokkurinn fordæmi harðlega fjöldamorð, sem Ísraelsher hafi framið í Beit Hanoun á Gasasvæðinu 8. þessa mánaðar þar sem 18 manns létu lífið, aðallega konur og börn. Þessi morð hafi verið bein afleiðing langvinna ofbeldisverka Ísraelshers og allar siðaðar þjóðir hljóti að fordæma þau.

Þá segir í ályktuninni, að Ísraelsstjórn gangi fram með ólöglegum hætti gagnvart fleiri nágrannaríkjum og er m.a. vísað til hernaðaraðgerða Ísraelsmanna í Líbanon í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert