Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að sér þætti það mjög leitt að skemmdir hefðu orðið á nokkrum fjölbýlishúsum við Keflavíkurflugvöll vegna röra sem sprungu í frosthörkunni. „Ég ætla bara að taka fram að mér þykir mjög leitt að þetta skuli hafa gerst og biðst afsökunar á því," sagði ráðherra.

Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls á vatnskemmdum í fjölbýlishúsum á Keflavíkursvæðinu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag. Fram kom í máli ráðherra að vatnsrör hefðu sprungið í nítján húsum á svæðinu, sökum frosthörku. Þrettán hús hefðu skemmst mjög mikið, en sex minna. „Nákvæmar upplýsingar um umfang tjónsins liggja því miður ekki fyrir á þessari stundu en það er ekki verið að tala um hundruð milljóna, frekar tugi. Það liggur fyrir," upplýsti ráðherra.

Jón og aðrir stjórnarandstæðingar gagnrýndu að ekkert eftirlit hefði verið haft með húsunum. „Það hefur ekki verið um neitt eftirlit að ræða innandyra í þessum byggingum, ekkert eftirlit með því hvort þar sé allt í lagi. Það er ekki eins og ríkið sé að reyna að spara með því að kynda ekki blokkirnar á Keflavíkurflugvelli. Utanríkisráðuneytið kaupir ákveðið magn af heitu vatni af Hitaveitu Suðurnesja í gegnum hemil en hleypir því ekki inn á blokkirnar, borgar fyrir heita vatnið en hitar ekki blokkirnar — og niðurstaðan er þessi."

Ráðherra sagði að sýslumannsembættið á svæðinu hefði fylgst með mannaferðum en að vissulega mætti halda því fram að þarna hefði átt að vera eitthvað viðhaldseftirlit. „En þá hefði líka kostað peninga að halda því í gangi. Eftirlitið sem þarna hefur verið hefur verið á vegum sýslumannsembættisins og hefur snúið miklu frekar að mannaferðum. Ég ætla bara að taka fram að mér þykir mjög leitt að þetta skuli hafa gerst og biðst afsökunar á því."

Valgerður sagði að íslenska ríkið myndi bera kostnað vegna tjónsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert