Ákvörðun ráðherra um hækkun áfengisgjalds gagnrýnd

„Þetta mun óhjákvæmilega leiða til þess að ódýrara léttvín mun hækka í verði,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, um ákvörðun fjármálaráðherra að hækka áfengisgjald á sama tíma og virðisaukaskattur verður lækkaður í 7% en breytingin er gerð til að samræma álagningu virðisaukaskatts á vörur og þjónustu hjá hótelum og veitingastöðum.

Andrés segist geta slegið því föstu að um áttatíu prósent af því léttvíni sem almenningur kaupi sé undir 1.300 krónum og því muni þessi breyting hafa áhrif á pyngju almennings. Hann segir gagnrýnivert að á meðan virðisaukaskatturinn sé lækkaður sé laumað inn verðhækkun á áfengi í söluhæstu flokkum.

Í Morgunblaðinu í dag sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra að verðbreytingar yrðu ekki stórvægilegar. „Álagningin sem er óháð verðinu hækkar en álagningin sem er háð verðinu lækkar. Áfengi sem er þá dýrara lækkar en það sem er ódýrara hækkar innan sömu áfengistegundar.“ Andrés segir þetta vera afturför þar sem afgerandi þáttur í ákvörðun viðskiptavina við val á víni sé verðið. Án þess að hafa forsendur frumvarpsins fyrir framan sig segist hann telja að hækkun á flösku af léttvíni sem kostar þúsund krónur í dag myndi nema um hundrað krónum.

„Vín sem kostar í kringum þúsund til tólf hundruð krónur hækkar hlutfallslega meira en dýrara vín og þá kemur þetta til með að hafa bein áhrif á neytandann,“ segir Andrés og bætir við að neytandinn hefði frekar átt að njóta góðs af breytingunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert