Segir hagsmuna Reykjavíkur hafa verið gætt með kaupum á lóðum í Norðlingaholti

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, segir að hagsmuna Reykjavíkur hafi verið gætt í hvívetna þegar hann féllst á að Reykjavíkurborg myndi una úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta um lóðir í Norðlingaholti, sem voru í eigu Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar voru greiddar rúmar 208 milljónir króna fyrir lóðirnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði tóku málið upp á fundi ráðsins í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, sagði í tilkynningu í morgun, að þetta væri í þriðja sinn á örfáum vikum, sem borgarstjóri væri orðinn ber að því að skrifa undir samninga fyrir hundruð milljóna og raunar milljarða á bak við borgarráð.

Í tilkynningu, sem Vilhjálmur sendi frá sér nú síðdegis segir hann, að þann 1. nóvember 2005 hafi borgarstjórn samþykkt að óska eftir heimild til að taka lóðir Kjartans Gunnarssonar í Norðlingaholti eignarnámi. Í framhaldi af því kvað matsnefnd eignarnámsbóta upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta, samtals 208.499.039 krónur.

Þann 6. apríl 2006 var úrskurður matsnefndarinnar lagður fyrir borgarráð til kynningar ásamt minnisblaði skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu þar sem fram kom sú afstaða hans, að fullt tilefni væri til þess að láta reyna á niðurstöðu matsnefndarinnar fyrir dómstólum.

Vilhjálmur segir, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, hafi tekið ákvörðun í maí sl. um að greiða Kjartani hluta höfuðstóls, tæpar 118 milljónir króna, vegna lóðanna. Sú ákvörðun hafi hvorki verið kynnt né samþykkt í borgarráði.

„Á þessum tíma var ekki búið að taka ákvörðun um hvort látið yrði reyna á fjárhæð bótanna fyrir dómi eins og kemur fram í bréfi Reykjavíkurborgar til Kjartans Gunnarssonar dags. 22. maí sl. Það er því rangt sem haldið er fram af fulltrúum Samfylkingar í borgarráði að borgarráð hafi samþykkt málshöfðun á fundi sínum 6. apríl.

Við undirbúning að hugsanlegri málshöfðun í sumar kom í ljós að nýlegt útboð á vegum Reykjavíkurborgar á byggingarlóðum raskaði forsendum að baki fyrra mati skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu. Með minnisblaði, dags. 4. júlí sl. kynnti skrifstofustjórinn borgarstjóra þá breyttu afstöðu og lagði til að Reykjavíkurborg myndi una úrskurðinum. Málshöfðun gæti leitt til enn hærri fjárhæðar en matsnefndin hafði kveðið á um. Borgarstjóri féllst á þá tillögu enda var með henni verið að gæta hagsmuna Reykjavíkurborgar í hvívetna. Kjartani Gunnarssyni voru því greiddar eftirstöðvar höfuðstólsins. Ekki var þörf á því að kveða á um þá greiðslu í samningi sem leggja skyldi fyrir borgarráð þar sem fjárhæðin hafði verið ákveðin með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sem var skuldbindandi fyrir Reykjavíkurborg úr því ákveðið hafði verið að una henni. Er sú framkvæmd í fullu samræmi við það sem gerist þegar Reykjavíkurborg er skylduð til að greiða aðila eitthvað á grundvelli dóms eða úrskurðar," segir í tilkynningu Vilhjálms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert