Óvissa um kostnað við tvöföldun Suðurlandsvegar

Suðurlandsvegur rétt við gatnamót Þrengslavegar.
Suðurlandsvegur rétt við gatnamót Þrengslavegar. mbl.is/Júlíus

Fram kom á Alþingi í dag, að óvissa léki á því hver kostnaður við tvöföldun Suðurlandsvegar er og voru nefndar tölur frá 6 milljörðum til 12 milljarða. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði að stærsti óvissuþátturinn væri frágangur gatnamóta og hvort gerð verði hringtorg eða mislæg gatnamót. Sagði Sturla að 70 gatnamót væru á Suðurlandsvegi frá Reykjavík að Selfossi og meta þyrfti t.d. hvort hringtorg ættu að vera á hverjum gatnamótum að bæjum eða þéttbýlisstöðum eða hvort gengið yrði frá gatnamótunum með öðrum hætti. Fram kom hjá þingmönnum, að þverpólitísk samstaða væri um þá kröfu að tvöfalda Suðurlandsveg.

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokks, tók málið upp í byrjun þingfundar og sagði að upplýsingar frá Vegagerðinni um kostnað við tvöföldun Suðurlandsvegar, stönguðust á. Sagði hann að framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði bréf til Vegagerðarinnar um mitt síðasta ár og spurt um áætlaðan kostnað við tvöföldun vegarins. Í ýtarlegu og sundurliðuðu svari hafi komið fram að áætlaður kostnaður væri 7-8 milljarðar króna. Nú segði vegamálastjóri hins vegar í fjölmiðlum, að kostnaðurinn væri 12 milljarðar króna.

Sturla Böðvarsson sagði að um væri að ræða flókna framkvæmd og kostnaðarsama en kostnaðarútreikningar væru mismunandi eftir forsendum. Sagði hann að Vegagerðin myndi nú fara í að greina leiðirnar, sem færar væru og velja aðferð og þá þá komi kostnaðurinn í ljós. „Aðalatriðið er að við vitum hvert verkefnið á að verða," sagði Sturla.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að í skriflegu svari samgönguráðherra við fyrirspurn á Alþingi á síðasta ári hefði verið áætlað að tvöföldun vegarins frá Reykjavík til Selfoss kostaði 6-8 milljarða.

Drífa Hjartardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði eins og fleiri þingmenn, að þverpólitísk samstaða væri um að Suðurlandsvegur yrði tvöfaldaður. Sagði hún að Vegagerðin ætti að hætta við undirbúning svonefnds 2+1 vegar og byrja að undirbúa tvöföldun vegarins.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að það væri ekki hátt risið á stjórnarþingmönnum og ráðherrum að kenna vegamálastjóra um aðgerðarleysi þegar framlög til vegamála hefðu verið skorin niður um 6 milljarða á kjörtímabilinu. Sagði Steingrímur, að ef ákvörðun yrði tekin á Alþingi um að tvöfalda Suðurlandsveg myndi Vegagerðin vinna samviskusamlega að því. Menn segðu, að þverpólitísk samstaða væri um að að tvöfalda Suðurlandsveg um Hellisheiði en væri ekki þverpólitísk samstaða um að tvöfalda Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum, leggja af einbreiðar brýr og leggja jarðgöng í Óshlíð? „Þetta snýst um fjármuni og forgangsröðun," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert