Kærður á ný fyrir nauðgun

Karlmaður á sextugsaldri var á mánudag úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa framið hrottalega nauðgun gegn sambýliskonu sinni á heimili hennar um síðustu helgi. Um er að ræða mann sem í haust var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir ítrekaðar nauðganir og hrottalegar líkamsárásir gegn fyrrverandi unnustu sinni auk frekari líkamsárása gegn annarri konu sem var sambýliskona hans um tíma. Var sá dómur með allra þyngstu dómum sem kveðnir hafa verið upp í nauðgunarmálum hérlendis. Brotin voru framin sumarið 2005 og í febrúar á þessu ári.

Maðurinn áfrýjaði fangelsisdómi sínum til Hæstaréttar en í millitíðinni hafði hann byrjað í nýju sambandi með konu og sætir nú rannsókn fyrir alvarlega árás og nauðgun gegn henni á heimili hennar. Leitaði hún til lögreglu á þriðjudaginn og kærði manninn. Hann var handtekinn samdægurs og mat lögregla málið svo að fara þyrfti með hann fyrir dómara og fá hann úrskurðaðan í gæsluvarðhald til 20. desember.

Talinn hættulegur og ógn við rannsóknarhagsmuni

Ekki telst algengt að gæsluvarðhalds sé krafist í nauðgunarmálum, en að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík, lýtur gæsluvarðhaldskrafan að því að maðurinn sé hættulegur konum auk þess sem læsa þurfi hann inni í þágu rannsóknarhagsmuna.

Konan fór sjálf á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum og var með mikla áverka. Segir Hörður ljóst að aðförin að henni hafi verið hrottaleg. Henni hafi verið haldið fanginni á eigin heimili og þar beitt ofbeldi af hálfu árásarmannsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert