Fangageymslur fullar í Reykjavík í morgun; miðbæjargestir viðskotaillir

Fangageymslur í Reykjavík eru fullsetnar eftir nóttina, að sögn lögreglu. Ekki var þó mikið um afbrot og hefðu „gestir“ lögreglunnar í flestum tilvikum sloppið með tiltal ef þeir hefðu ekki verið jafn viðskotaillir og raun bar vitni, segir lögreglan.

Var það í flestum tilvikum illt viðmót er varð til þess að lögreglan átti ekki annars úrkosti en setja fólkið í geymslu.

Ekki segist lögreglan hafa skýringu á því hvers vegna miðbæjargestir hafi verið svona óvenju skapvondir í nótt, ætíð sé reynt að tala til það fólk sem hafa þurfi afskipti af og fá það til að fara til síns heima. Nú hafi brugðið svo við að ekki hafi verið neinu tauti við menn komandi.

„Hvort það er tunglstaðan eða eitthvað annað skal ég ekki segja,“ sagði lögreglan í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert