Guðmundur lætur tímabundið af störfum fyrir Byrgið

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins.
Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins. mbl.is/Jim Smart

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hefur látið tímabundið af störfum á meðan rannsókn stendur yfir á málefnum Byrgisins. Lögmaður Byrgisins, Hilmar Baldursson, staðfesti þetta í kvöld og sagði þetta eðli málsins samkvæmt, þar sem kæra yrði lögð fram á morgun vegna umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kompáss um Guðmund og starfsemi Byrgisins. Málefni Byrgisins yrðu því til rannsóknar og því yrði Guðmundur að láta af störfum á meðan.

Þar var því haldið fram að Guðmundur hefði nýtt sér varnarleysi nokkurra skjólstæðinga sinna í meðferð við áfengisfíkn og haft við þá mök. Guðmundur ætlar í meiðyrðamál við Stöð 2 út af þessu og sagði í viðtali á Bylgjunni í dag að ritstjóri Kompáss hefði gefið heimildarmönnum sínum eiturlyf í skiptum fyrir upplýsingar. Þessu vísaði Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri Stöðvar 2, á bug í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld og sagði að fréttastofan hefði óyggjandi gögn fyrir þeim fullyrðingum, sem komu fram í Kompási í gær.

Utanríkisráðuneytið birti í dag skýrslu, sem gerð var um málefni Byrgisins árið 2002 þegar starfsemin fór fram í mannvirkjum í Rockville, skammt utan við Sandgerði. Aðalstein Sigfússon, sálfræðingur, gerði úttektina og skoðaði m.a. bókhald Byrgisins og lagði mat á rekstrarkostnað og gildi starfseminnar.

Almennt kom fram það álit viðmælenda að þörf væri fyrir Byrgið og studdi Aðalsteinn Sigfússon, höfundur skýrslunnar, það álit. Byrgið hefði komið til móts við hóp einstaklinga sem aðrar meðferðarstofnanir hefðu gefist upp á og veitt þeim meðferð, húsaskjól og öryggi. Hins vegar leiddi úttektin í ljós að fjármálastjórn Byrgisins væri verulega áfátt, m.a. væru skammtímaskuldir miklar, upplýsingar um fjárhagsleg málefni byggð á veikum grunni og mörk milli persónulegs kostnaðar og kostnaðar meðferðarheimilis óskýr. Þá var Byrgið í kjölfar úttektar, áminnt um það af utanríkisráðuneytinu að afla nauðsynlegra vátrygginga en í ljós kom að það hefði ekki verið gert.

Í skýrslunni var mælt með því að ríkið héldi áfram að veita Byrginu fjárhagsstuðning en að uppfylltum skilyrðum um að bæta úr annmörkum sem bent var á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert