Rannsókn á meintum hlerunum ekki haldið áfram

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson.

Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, segir að fyrirliggjandi rannsóknargögn um meintar hleranir á síma fyrrum utanríkisráðherra og starfsmanni ráðuneytisins, á meðan þeir gegndu störfum í ráðuneytinu, gefi ekki tilefni til þess að rannsókn á málinu verði haldið áfram.

Ríkissaksóknari fól Ólafi Haukssyni, lögreglustjóra á Akranesi, að annast rannsókn á ætluðum hlerunum á síma Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra, og á síma Árna Páls Árnasonar, sem var starfsmaður í utanríkisráðuneytinu. Tilefnið var yfirlýsingar þeirra í fjölmiðlum um hleranir á símum og símtölum þeirra, annars vegar á árinu 1992 eða 1993 og hins vegar á árinu 1995.

Teknar voru skýrslur af opinberum starfsmönnum, alls 6 mönnum, sem voru lögreglumenn, starfsmenn í útlendingaeftirliti eða hjá tollgæslu. Einnig voru teknar skýrslur af 6 mönnum, sem voru starfsmenn Pósts og síma auk þess sem aflað var greinargerðar frá lögreglustjóranum í Reykjavík um framkvæmd símhlerana sem lögreglan í Reykjavík stóð fyrir á árunum 1992 til 1995.

Í tilkynningu frá ríkissaksóknara segir, að ekkert hafi komið fram, sem studdi ummæli þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls um að símar þeirra hefðu verið eða kynnu að hafa verið hleraðir þegar þeir gegndu störfum í utanríkisráðuneytinu.

Í tilkynningu ríkissaksóknara segir síðan:

    Af hálfu Jóns Baldvins hefur m.a. komið fram að hann hafi, á árinu 1991, 1992 eða 1993, fengið kunningja sinn á fjarskiptasviði, til að ganga úr skugga um hvort sími hans í utanríkisráðuneytinu væri hleraður og sá maður lýst því að svo væri.

    Miklu þykir skipta að fá upplýsingar um hver þessi kunnáttumaður er til að fá lýsingar hans á þeim mælingum sem hann gerði og hvað þær sýndu. Jón Baldvin hefur ekki viljað veita upplýsingar um hver maðurinn er.

    Í greinargerð lögreglustjórans á Akranesi um rannsóknina segir m.a:

    „Því til viðbótar benti Jón Baldvin á mann sem vann hjá Símanum sem hefði orðið vitni að hlerunum á síma Jóns Baldvins í Landsímahúsinu. Við rannsókn kom fram að þær upplýsingar studdu ekki við grunsemdir um ólögmæta hlerun á síma JBH og fundust eðlilegar skýringar á atferlinu í Landsímahúsinu.

    Einnig kom fram hjá JBH að hann hefði fengið upplýsingar frá aðila, sem starfaði innan íslensku leyniþjónustunnar um ólögmætar símhleranir hjá ráðamönnum fram til dagsins í dag. Tilgreindir voru aðilar sem hann taldi að störfuðu innan leyniþjónustunnar á umræddum árum og að þeir hefðu starfað í útlendingaeftirlitinu. Nafn heimildarmanns um leyniþjónustuna gaf hann ekki upp en gaf nokkra lýsingu á starfsferli hans (...)

    Í seinni skýrslu af JBH gaf hann upp nafn heimildarmanns síns um leyniþjónustu á Íslandi og var sá yfirheyrður. Hann taldi sig ekki geta staðfest veigamikil atriði í frásögn JBH varðandi umrædda leyniþjónustu og hafði ekki vitneskju um símhleranir án úrskurða auk þess sem hann var hættur störfum á því tímabili sem um ræðir."

Í tilkynningu ríkissaksóknara segir, að grunsemdir Árna Páls um hlerun hafi verið reistar á því að hann hefði, stuttu eftir að hann átti símtal í heimasíma sinn um málefni sem vörðuðu starf hans í utanríkisráðuneytinu, fengið viðvörun um að tala ekki óvarlega. Álitið var að sá maður, sem aðvaraði Árna Pál, kynni að varpa ljósi á hvort aðvörunin hefði verið sett fram vegna upplýsinga, sem fengust við hlerun á síma Árna Páls. Við rannsóknina vildi Árni Páll hins vegar ekki gefa upp nafn þessa manns.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert