Biskup Íslands: Jesúbarnið vantar hæli í heiminum okkar

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í jólaprédikun í Dómkirkjunni í gær að Jesúbarnið sem fæddist í Betlehem vanti hæli í heimi okkar.

Hann vitnaði einnig í prédikuninni í lagið Söguna af Jesúsi, sem Baggalútur flytur og sagðist ekki hafa staðist mátið þótt mörgum þætti vafalaust sumt á mörkunum í textanum og vart eftir hafandi á helgri jólanótt í sjálfri dómkirkju landsins.

„Það er ekkert nýtt að sagan af Jesú örvi skáld og listamenn til nýtúlkana, og menn leyfa sér jafnvel að verða smá svona prakkaralegir, teygja sig jafnvel út á mörk hins sæmilega. Af því að eiginlega er saga jólaguðspjallsins fráleit, og svo er hún á þessu svæði varnarleysisins þar sem húmorinn og ímyndunaraflið halda sig, hláturinn og gráturinn," sagði Karl.

Hann sagði að jólaguðspjallið þoli vel að hljóma margradda og jafnvel með yfirröddum húmorsins í bland. „Bara að við gleymum ekki virðingunni fyrir hinni heilögu alvöru sem undir býr. Eins og jafnan í návist barns. Á jólum erum við í návist Jesúbarnsins í jötunni. Og í návist þess, í návist barns á kaldhæðni og spé aldrei við, né hinn kaldi hlátur og napra háð. Ég bið þess, kæra unga fólk, já og þið sem eldri eruð, ég bið þess að þið leyfið ætíð lotningunni og friðinum að eiga skjól hjá ykkur. Jólin eru svo dýrmæt og boðskapur þeirra svo undursamlegur, og áhrif þeirra svo mannbætandi og lífseflandi. Við megum ekki glata því í einhvern vitleysisgang."

Biskup sagði að prestur hefði spurt börnin í barnastarfinu: „Af hverju fæddist Jesúbarnið í fjárhúsi?“ Og eitt barnið svaraði að bragði: „Af því að mamma hans var þar.“

„En hvar ert þú?" spurði Karl í prédikuninni. „Hvar ert þú þegar mildin og miskunnsemin knýja dyra hjá þér? Hvar ert þú, þegar trúin, vonin og kærleikurinn vilja fá athvarf hjá þér? Hvar ert þú þegar Jesús Kristur kallar á þig? Og hann, barnið í jötunni, meistarinn sem flutti fjallræðuna, og sagði söguna af miskunnsama Samverjanum og týnda syninum, og setti fram fordæmi hins fórnandi og fyrirgefandi kærleika, hann sem dó á krossi og reis af gröf. Þetta barn það vantar hæli í heiminum okkar."

Prédikun biskups Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert