Sýknaður af ákæru fyrir að koma fyrir gasbyssu á Breiðafjarðareyju

Haförn á flugi.
Haförn á flugi. mbl.is/Guðlaugur

Héraðsdómur Vestfjarða hefur sýknað mann af ákæru fyrir að koma fyrir gasbyssu á eyju á Breiðafirði og hleypa af henni í þeim tilgangi að fæla erni frá hreiðurstæði í hólmanum og hindra þá í að verpa þar. Taldi lögreglustjórinn á Patreksfirði, að þetta bryti gegn lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands kærði málið til lögreglu í apríl á síðasta ári og var byssan fjarlægð úr eyjunni í kjölfarið. Um var að ræða gasbyssu, sem hægt var að stilla þannig að hún gæfu frá sér hljóð sem minntu á byssuskot og eru gjarnan notaðar til að fæla fugla. Dýravistfræðingurinn taldi einsýnt að byssunni hefði verið komið fyrir til þess að koma í veg fyrir að ernir gætu orpið í hólminum.

Fram kom í kærunni að í eyjunni hefði þetta vor verið byggt upp arnarhreiður, en við eftirlitsflug Náttúrufræðistofnunar Íslands umræddan dag hefði engan örn verið að sjá í hólminum. Einn örn hefði hins vegar sést á flugi á svæðinu.

Eigandi byssunnar gaf skýrslu hjá lögreglu þar sem hann sagðist eiga bæði byssuna og gaskútinn og hefði komið búnaðnum upp til að fæla burt svartbak og flökkuerni úr æðarvarplandi. Taldi maðurinn sig hafa verið í fullum rétti til að setja byssuna upp í hólminum og lýsti því yfir að honum væri ekki kunnugt um að örn hefði nokkru sinni orpið í eyjunni. Fyrir dómi sagðist maðurinn vera þess fullviss að örn hefði aldrei orpið í eyjunni. Þar æri hins vegar setstaður arna, staður þar sem ernir sætu mikið á haustin og að vetrinum.

Dómurinn segir í niðurstöðu sinni, að nokkrar líkur standi til þess að hreiðurstæði arnar hafi verið í eyjunni þegar gasbyssan var sett þar upp. Því fari hins vegar fjarri að þær líkur séu svo sterkar að talið verði sannað gegn neitun mannsins, svo hafið verði yfir skynsamlegan vafa. Maðurinn var því sýknaður af ákærunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert