„Rán" í Garðabæ reyndist vera sviðsett

mbl.is/Júlíus

Í ljós hefur komið að meint rán, sem framið var í verslun 11-11 í Garðabæ í fyrrakvöld var sviðsett, og starfsmaður verslunarinnar, sem tilkynnti ráni til lögreglu og sagðist hafa orðið fyrir árás, var í vitorði með manninum sem þóttist vera ræninginn. Lögreglan hefur fundið hluta þýfisins og járnstöng þá, sem „ræninginn" bar þegar hann kom inn í verslunina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði hafa báðir mennirnir játað brot sitt og tveir aðrir, sem einnig voru handteknir vegna málsins, hafa einnig játað sinn þátt, sem telst þó mun minni en hinna tveggja.

Öllum mönnunum hefur verið sleppt úr haldi lögreglu og telst málið upplýst.

Lögreglan fékk tilkynningu um það klukkan 23:12 á miðvikudagskvöld, að framið hefði verið vopnað rán í verslun 11-11 í Gilsbúð í Garðabæ. Sagði starfsmaður verslunarinnar, að dökkklæddur maður hefði komið hlaupandi að honum og slegið hann í andlit þannig að hann datt í gólfið. Hafi maðurinn verið íklæddur lambhúshettu og vopnaður járnstöng, sem hann þó notaði ekki heldur hafi hrifsað peninga til sín, nokkra tugi þúsunda, og horfið út í myrkrið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert