Þrír menn bera faglega ábyrgð á Byrginu

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins.
Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins. mbl.is7Eggert

Fagleg ábyrgð á starfsemi Byrgisins – kristilegs líknarfélags ses. er í höndum Guðmundar Jónssonar forstöðumanns, Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis og Magnúsar Skúlasonar læknis. Þetta kom fram í svari Guðmundar Jónssonar til félagsmálaráðuneytisins í gær.

Ólafur Ólafsson staðfesti í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann bæri faglega ábyrgð en mótmælti því að Byrgið hafi rekið afeitrunardeild og sagðist hann hafa beðið um lögreglurannsókn daginn eftir að hann sá fréttaskýringaþáttinn Kompás um málefni Byrgisins og sömuleiðis hafi hann farið fram á að forstöðumaðurinn viki og að strax hefði orðið við því.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sendi Byrginu sjö spurningar um miðjan desember og fór fram á að þeim yrði svarað og að sér yrði send greinargerð eigi síðar en 22. desember. Þessar spurningar munu hafa verið ræddar á fundi í félagsmálaráðuneytinu í gær þar sem sátu einnig fulltrúar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, lögreglustjórans í Reykjavík, landlæknisembættisins og Fasteigna ríkissjóðs. Spurningar félagsmálaráðuneytisins og svör eru í skjalinu hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert