Ekki líkur á að önnur stórvirkjun rísi segir forsætisráðherra

Hálslón
Hálslón mbl.is/RAX

Ekki eru líkur á að önnur stórvirkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun rísi hér á landi næstu árin og kannski aldrei, að mati Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í áramótagrein hans í Morgunblaðinu á gamlársdag.

Geir segir þar m.a. að framkvæmdirnar við virkjunina og nýtt álver á Reyðarfirði hafi haft mikil og jákvæð áhrif á mannlíf og atvinnuástand á Austurlandi og muni gera um langa framtíð. Þær hafi einnig ýtt undir hagvöxt í landinu. Útflutningur frá álverinu muni skjótt vega upp á móti þeim neikvæðu áhrifum á viðskiptajöfnuð sem innflutningur vegna framkvæmdanna hefur haft síðustu ár.

Geir nefnir að deilur um þessar framkvæmdir hafi verið miklar. Þýðingarlaust sé að halda þeim áfram því mannvirkin séu risin. Mikilvægt sé að draga af þeim lærdóm fyrir framtíðina.

Þrátt fyrir litlar líkur á að önnur stórvirkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun rísi telur Geir að það væri glapræði að segja þar með skilið við þá stefnu að nýta orkulindir þjóðarinnar til að bæta lífskjörin í landinu. Geir fjallar einnig um skattamál og segir að lækkun skattlagningar á matvæli og fleira muni leiða til verulegrar lækkunar á neysluverðsvísitölu og auka kaupmátt heimilanna. Þá lækki tekjuskattur um eitt prósent um áramótin og einnig verður persónuafsláttur aukinn.

Geir rifjar upp að ákveðið hafi verið eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins að auka persónuafslátt meira en áður var ráðgert og lækka tekjuskatt um eitt prósent í stað tveggja. „Viðbótarlækkun tekjuskatts um eitt prósentustig bíður því næsta kjörtímabils og vonandi verður svigrúm til að gera enn betur,“ skrifar Geir.

Um varnarmálin segir Geir m.a. að ákvörðun Bandaríkjamanna að hverfa héðan með herlið sitt hafi valdið vonbrigðum en þó ekki verið óvænt að öllu leyti.

„Stærstu tímamótin í þessu sambandi eru þó e.t.v. þau að framvegis verða Íslendingar að gera ráð fyrir að vera sjálfir virkari þátttakendur í eigin öryggismálum og verja til þeirra mun meiri fjármunum en áður. Það er ekki lengur hægt að ætla skattgreiðendum í öðrum löndum að taka á sig allan kostnað af vörnum landsins,“ skrifar Geir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert