Biskup Íslands gagnrýnir aftöku Saddams

Dómkirkjan í Reykjavík
Dómkirkjan í Reykjavík mbl.is/Brynjar Gauti

Árið sem leið var ár stríðs og hörmunga, haturs og hermdarverka, sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands í nýárspredikun í Dómkirkjunni í morgun.

„Í tilgangslausu stríði í Írak hafa þúsundir á þúsundir ofan fallið í valinn, þúsundir saklausra karla, kvenna og barna. Keðjuverkun ofbeldis virðist engan enda ætla að taka. Aftaka Saddams var einn viðbjóðslegi þátturinn í þeirri ömurlegu atburðarás og verður eflaust vatn á myllu hermdarverkamanna sem nota það tækifæri til að réttlæta enn meiri dráp og skelfingu. Ég hef megnustu andstyggð og óbeit á dauðarefsingum, eins og þorri Íslendinga. Kirkjuleiðtogar og kirknasamtök um allan heim hafa fordæmt dauðarefsingar sem villimannlegar og ómannúðlegar. Með aftöku sakamannsins er í raun verið að segja að það sé ekkert rúm fyrir iðrun og endurnýjun hugarfars og lífernis."

Slysaöldu má helst líkja við hamfarir

Skelfileg umferðarslys ollu dauða 30 karla, kvenna, barna, og skilja eftir harm og sorg, sagði Karl í predikun sinni.

„Og svo eru ótalin þau mörgu sár og örkuml sem slysin valda. Þetta er ægileg blóðtaka, sem helst má líkja við hamfarir. Öllum sem eiga um sárt að binda vegna slysa og annarra áfalla, sendum við hlýjar kveðjur héðan úr Dómkirkjunni. Drottinn umvefji líkn sinni og huggun þig sem saknar og syrgir, ljósið hans lýsi þér.

Slysaaldan á vegunum hefur slegið almenning óhug, sem eðlilegt er. Ástæður eru vitaskuld margvíslegar, og seint hægt að alhæfa. Umræðan um vegamál og samgöngubætur hefur orðið hávær og vaxandi krafa um tafarlausar umbætur. Augljóst er að víða, allt of víða annar vegakerfið ekki sívaxandi umferðarþunga. En eitt er alveg víst, engin ríkisstjórn, ekkert löggjafarþing, ekkert fjármagn, hvaðan svo sem það kemur, geta breytt því sem mestu máli skiptir í þessum efnum, og helst má duga gegn óheillaþróun.

Það eru algeng viðbrögð við sorg og allskyns ógn að bregðast við með ásökunum, leita sökudólga og tengja inn á reiði og ótta sem með öllum býr. Þess í stað ættum við að leita þess sem miðar að lausn og von. Við, hvert og eitt okkar getur lagt mikilvægasta lóðið á þá vog, sem er tillitssemi, aðgæsla og virðing. Það er ekki bara samgönguvandi sem við er að etja. Þarna er líka siðferðismein á ferðinni, vaxandi yfirgangur og æsingur í samfélaginu. Fregnir af háttsemi vegfarenda sem komu þar að sem stórslys urðu á þjóðvegum, og með frekju og óþolinmæði trufluðu störf lögreglunnar og þeirra sem hlynntu að slösuðum, eru ótrúlegar og skelfilegar."

Karl Sigurbjörnsson, biskups Ísland
Karl Sigurbjörnsson, biskups Ísland
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert