Halldór segir að norræna samstarfið muni eflast ef öll ríkin væru í ESB

Halldór Ásgrímsson.
Halldór Ásgrímsson. mbl.is/Eyþór

Halldór Ásgrímsson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar um áramótin, segir í viðtali við fréttavef Norðurlandaráðs í dag, að norræna samstarfið myndi örugglega eflast ef öll Norðurlöndin væru aðilar að Evrópusambandinu.

„Norðurlönd myndu þá standa saman og hafa meiri áhrif innan Evrópu. Þannig yrði norrænt samstarf enn öflugra. Ég hef tekið þátt í þessu samstarfi allan minn stjórnmálaferil og því verður ekki neitað að Ísland og Noregur eru að nokkru leiti utanveltu í evrópsku samstarfi. Norræna samstarfið er samt árangursríkasta leiðin fyrir okkur til að hafa þar einhver áhrif," segir Halldór í viðtalinu, sem Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, tók.

Halldór segir engar byltingakenndar breytingar á döfinni í starfseminni Norrænu ráðherranefndarinnar og lýsir yfir ánægju með þá samstöðu sem skapast hefur um að efla norrænt samstarf.

„Við verðum að standa saman. Það eru einungis tíu ár síðan að margir töldu norræna samstarfið búið að vera, og að það eina sem skipti máli væri Evrópusamstarfið. Þess vegna gladdi það mig hve mikil samstaða var á Norðurlandaráðsþinginu 2006 um það að löndin yrðu að styrkja norræna samstarfið," segir Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert