Magnús Magnússon borinn til grafar

Magnús Magnússon var borinn til grafar í dag.
Magnús Magnússon var borinn til grafar í dag. Reuters

Magnús Magnússon, fræðimaður og fyrrum þáttastjórnandi í breska sjónvarpinu var borinn til grafar í dag í sóknarkirkjunni í Baldernock nærri Glasgow. Um það bil 200 manns voru viðstaddir athöfnina, þar sem tvö íslensk lög voru spiluð. Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd athöfnina og lýsti því hvað Magnús hafði verið stoltur af ætterni sínu.

Á Bretlandseyjum var hann þekktastur fyrir að stýra hinum vinsæla spurningaþætti Mastermind. Hann lést 7. janúar 77 ára gamall úr krabbameini.

Magnús stýrði Mastermind í 25 ár á BBC. Hann fæddist í Reykjavík 1929 en hlaut menntun sína í Edinborg þar sem faðir hans var ræðismaður Íslands. Magnús hlaut framhaldsmenntun sína í Oxford og hóf síðan störf við blaðamennsku og fræðimennsku jöfnum höndum uns hann réði sig til BBC.

Hann var íslenskur ríkisborgari alla tíð og talaði reiprennandi íslensku.

Mastermind spurningaþættirnir hófu göngu sína 1972 og þegar þeir voru hvað vinsælastir fylgdust um 22 milljónir áhorfenda með þeim. Magnús spurði ríflega 64 þúsund spurninga í þeim 447 þáttum sem hann stýrði. Þættirnir voru lagðir niður 1997 er áhorfið fór niður fyrir fimm milljónir en voru síðan endurvaktir 2003 með John Humphrys við stjórnvölin.

Magnús var heiðraður af Elísabetu II Englandsdrottningu 1987 sem gerði hann að heiðurs riddara bresku krúnunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert