Ákvæði um yfirtöku á flugstarfsemi

eftir Davíð Loga Sigurðsson

david@mbl.is

GÖGN er varða varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna sem Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra aflétti leynd af í gær vekja spurningar um hvort bandarísk heryfirvöld hafi það á valdi sínu – jafnvel nú þegar þau hafa kallað allan her sinn frá landinu – að ákveða einhliða í tengslum við ófrið eða hernaðarlegt hættuástand að yfirtaka fulla stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli.

Valgerður greindi frá því í ræðu sem hún flutti í Háskóla Íslands í gær að það „andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom“ væri ekki það vinnulag sem hún vildi viðhafa. Sagði Valgerður að umræða um öryggis- og varnarmál þyldi það alveg, að vera dregin fram í dagsljósið. Af þeim sökum hafi hún ákveðið að aflétta leynd af viðaukum sem undirritaðir voru við gerð varnarsamningsins 1951.

Viðaukarnir voru gerðir aðgengilegir á vef utanríkisráðuneytisins í gærkvöld. Jafnframt hefur ráðherra aflétt leynd af breytingum á viðaukunum frá 1951 sem gerðar voru sl. haust í tengslum við varnaráætlun sem samið var um í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers frá Íslandi.

Athygli vekur að í 2. gr. viðbætis um almenna flugstarfsemi frá 1951 er kveðið á um að bandarísk heryfirvöld muni „að svo miklu leyti sem herþörf krefur að þeirra dómi, taka í sínar hendur, á þeim tímabilum, er þau telja nauðsynlegt, fulla stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi (þ. ám. lendingar- og aðflugsstjórn) og flugþjónustu“.

Þessu orðalagi var breytt sl. haust við samningsgerð Íslendinga og Bandaríkjanna en efnislega virðist greinin þó hin sama.

Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, segir að ef það sé enn á valdi bandarískra heryfirvalda að taka ákvarðanir sem þessar fái Bandaríkjamenn mjög greiðan hernaðaraðgang að landinu samkvæmt eigin hernaðarmati í ljósi þess, að þeir ákváðu einhliða að leggja niður herstöðina og hverfa af landi brott.

Engin áform um að koma upp íslenskum her

*Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra vill að Íslendingar stefni að því að landið verði áfram herlaust land. 12

Átta viðaukar birtir

*Viðaukar varnarsamningsins frá 1951 eru alls átta. Efni þeirra snertir að mestu stöðu bandarískra hermanna hér á landi ásamt stöðu og notkun varnarsvæðisins. 12
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert