Borga ekki meira en 74 milljónir kr. fyrir björgun skips

Flutningaskipið Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes.
Flutningaskipið Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. mbl.is/Ómar Óskarsson
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is Eigendur flutningaskipsins Wilsons Muuga telja sér ekki skylt að greiða meira en 74 milljónir króna vegna hreinsunar á strandstað við Hvalsnes þar sem flakið af Muuga liggur, og telja sig í fullum rétti til þess að takmarka sig við þessa fjárhæð, samkvæmt ákvæðum siglingalaga. Að sögn Guðmundar Ásgeirssonar stjórnarformanns Nesskips hefði átt að innleiða nýjar takmörkunarfjárhæðir fyrir áratug upp í rúmlega 200 milljónir króna en svo virðist sem Íslendingar hafi fyrir einhvern misskilning sofið á verðinum hvað það snerti.

Ljóst er að kostnaður við að ljúka frágangi á vettvangi er miklum mun hærri en 74 milljónir. Því er spurt annars vegar hvað afgangurinn kostar og hins vegar hver á að borga hann, opinberir aðilar eða eigendur skipsins, þegar þar að kemur.

Einnig má spyrja hvernig standi á því að tryggingafélag fragtskipsins Server, sem strandaði við Vestur-Noreg með geigvænlegum afleiðingum, hálfum mánuði eftir strand Muuga, muni greiða allan kostnað við hreinsun og björgun, á meðan skyldur tryggingafélags Wilsons Muuga eru ekki jafnafgerandi.

Þessi spurning verður áleitnari þegar tekið er mið af því að norsku og íslensku siglingalögin eru um margt áþekk. Strand Servers hafði í för með sér miklu meira mengunarslys en þegar Muuga strandaði og bleytti einn fugl olíu svo vitað sé.

Svarið við síðustu spurningunni er líklega að finna í því að ákvæði um svonefndan bótatakmörkunarrétt þess sem ábyrgðina ber eru nokkuð strangari í norsku siglingalögunum og af því tilefni telur dr. Guðmundur Sigurðsson prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík rétt að breyta íslensku siglingalögunum sem eru frá 1985. Um þessi atriði mun hann fjalla í erindi sínu sem hann flytur í dag á hádegisfundi Lögréttu, félags laganema og HR.

"Allfurðuleg staða"

Í siglingalögunum er kveðið á um möguleika útgerðar til að takmarka ábyrgð sína þegar atvik af þessu tagi henda. "Til þess að geta borið fyrir sig reglur um bótatakmörkun á grundvelli siglingalaga, þá þurfa eigendur að standa frammi fyrir beinharðri kröfu um áfallinn kostnað vegna aðgerða til að fyrirbyggja mengun," segir Guðmundur. "Hinsvegar er spurning um skipið sjálft og brottflutning þess og þar koma einnig til álita lög um verndun hafs og stranda sem kveða á um að eiganda sé skylt að fjarlægja skip af strandstað innan hálfs árs frá strandi. Ef eigandinn tekur strax sjálfstæða ákvörðun um að fjarlægja skipsflakið, þá eiga bótatakmörkunarreglur siglingalaga ekki lengur við og eigandinn ber sjálfkrafa kostnað af framkvæmdinni. Með öðrum orðum hefur hann ekki lengur rétt til þess að takmarka ábyrgð sína á grundvelli siglingalaganna. Það getur hann hinsvegar ef hann heldur að sér höndum og bíður eftir að opinberir aðilar fjarlægi flakið og sendi honum reikninginn þegar allt er yfirstaðið. Í raun er þetta allfurðuleg staða.

Að mínu mati þurfa reglur um bótatakmörkunarrétt, sem í tilviki Wilsons Muuga takmarkast við liðlega 70 milljónir króna úr hendi eigenda, að vera miklu hærri til að þær taki almennt þann kostnað sem hlýst af hreinsun og björgun við strandstað. Kostnaður umfram þessar 70 milljónir gæti lent á íslenskum stjórnvöldum ef skipaeigandinn ber fyrir sig siglingalög. Ábyrgðarreglur siglingalaga og laga um verndun hafs og strandar eru hinsvegar ekki alltaf samræmanlegar – og að mínu mati ganga siglingalögin hinum síðarnefndu framar."

Fyrirgerir rétti sínum

"Eins og staðan er í íslensku lagaumhverfi, þá er skipaeigandi því í þeirri stöðu að hann er nánast tilneyddur að halda að sér höndum ef hann ætlar yfir höfuð að beita fyrir sig bótatakmörkunarreglum því um leið og hann byrjar sjálfur að aðhafast eitthvað – þá fyrirgerir hann rétti sínum og er sjálfkrafa skyldugur til að borga kostnaðinn."

Þegar Vikartindur strandaði í Háfsfjöru 1997 gáfu eigendur skipsins fljótlega út yfirlýsingu um að útgerðin myndi bera kostnað af hreinsun á strandstað, hvað varðaði olíudælingu, brottflutning skipsins og fleira. "Í því tilviki hefðu eigendur líklega getað haldið að sér höndum og borið fyrir sig bótatakmörkunarreglur siglingalaga," segir Guðmundur. Raunin varð hinsvegar sú að mikill samstarfsvilji var fyrir hendi milli aðila um hreinsun.

Guðmundur bendir á að ákvörðun eigenda Wilsons Muuga um að halda að sér höndum í skjóli siglingalaga þurfi ekki að koma neinum á óvart í ljósi ákvæða siglingalaga um umrædda ábyrgðartakmörkun. "Tilfellið er að enginn veit auðvitað hvað kostar að fjarlægja skipið og yfirlýsing eigenda um að ætla að standa að þeirri framkvæmd myndi jafngilda því að gefa út óútfylltan tékka."

Í hnotskurn
» Dr. Guðmundur Sigurðsson flytur erindi í dag hjá Háskólanum í Reykjavík um það hver eigi að borga brúsann vegna strands Wilsons Muuga.
» Ljóst er að kostnaður við frágang á vettvangi strandsins er hærri en sem nemur þeirri upphæð sem eigendur Muuga telja sér skylt að borga nú.
» Í Noregi hefur verið tekið fyrir allan vafa með því að binda takmörkun ábyrgðar eigenda við nægilega háa fjárhæð sem dugar fyrir kostnaði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert