Sakborningar sýknaðir í Baugsmáli

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Jakob R. Möller eftir að dómur …
Lögmennirnir Gestur Jónsson og Jakob R. Möller eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp. mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur sýknaði í dag fjóra sakborninga í Baugsmálinu svonefnda, af sex ákæruliðum sem stóðu eftir af upphaflegri ákæru í málinu. Staðfesti dómurinn þannig niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, sagðist vera ánægður með niðurstöðuna en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um dóminn fyrr en hann hefði lesið hann.

Í málinu voru systkinin Jón Ásgeir og Kristín Jóhannesdóttir ákærð og endurskoðendurnir Stefán Hilmar Hilmarsson og Anna Þórðardóttir. Ákæruatriðin lutu annars vegar að meintum lögbrotum við gerð ársreikninga Baugs á árunum 1998–2001 og hins vegar við innflutning á tveimur bílum til landsins á árunum 1999 og 2000.

Gestur Jónsson sagði, að niðurstaðan hefði ekki komið sér á óvart. „Ég var algerlega sannfærður um það að þetta hlyti að vera niðurstaðan,“ sagði hann. Þegar hann var spurður hvaða áhrif hann teldi þessa niðurstöðu hafa á aðra þætti málsins, sem enn er ólokið fyrir dómstólum, sagði hann að þau yrðu efalaust einhver en vildi þó ekki fullyrða um það. „Það er ekki sannaðar sakir á þá sem eru ákærðir í málinu, og það leiðir til sýknu,“ sagði Gestur við blaðamenn.

Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í málinu, sagði að nú væri kominn dómur og því bæri að fagna að þessi hluti málsins væri kominn á endastöð. Hann sagði aðspurður, að niðurstaðan væri ekki áfall fyrir ákæruvaldið sem slíkt, sem í raun væri að sinna lögboðinni skyldu. Hann vildi lítið tjá sig um málið fyrr en hann væri búinn að fara yfir dóminn, en sagði að dómurinn byggðist á ákveðnum forsendum sem fara yrði yfir. „Niðurstaðan stendur en síðan á eftir að meta hvort forsendurnar hafi staðist allar. Það skiptir líka máli,“ sagði Sigurður.

Gafst ekki tækifæri til að koma að skýringum
Jóni Ásgeiri var gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um ársreikninga með því að hafa í starfi forstjóra Baugs látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningum félagsins 1998 til 2001 því látið hafi verið hjá líða að tilgreina nánar tiltekna fjárhæð lána, sem voru verið veitt honum sjálfum, Kristínu og tveimur nafngreindum félögum þeim tengdum.

Hæstiréttur segir, að við skýringu á merkingu hugtaksins lán hafi verið tekið mið af því, að eingöngu reyndi á hana við úrlausn um hvort Jón Ásgeir hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var hugtakið því skýrt eftir orðanna hljóðan.

Hæstiréttur tók fram, að þær fjárhæðir, sem tilgreindar voru í ákæru, hefðu myndast sem mismunur Baugs til eignar, sem stóð í lok hvers reikningsárs í bókhaldi félagsins á viðskiptareikningum hvers skuldara. Féllst rétturinn ekki á það með ákæruvaldinu, að hugtakið lán tæki til heildarfjárhæðar krafna Baugs á hendur fyrrgreindum aðilum í lok hvers reikningsárs, án þess að frekar yrði að huga að því hvernig kröfurnar hefðu myndast.

Í dómi Hæstaréttar segir, að af skoðun á viðskiptareikningum hafi verið talið, að tilteknar færslur sem taldar voru Baugi til eignar, gætu ekki talist hafa komið til með veitingu láns, óljóst væri af bókhaldsgögnum hvort aðrar færslur hefðu stafað af lánveitingum og þar að auki væri nokkur fjöldi færslna sem allar líkur virtust á að skipa ætti þannig í flokk. Auk þessa og annarra álitaefna var þó talið skipta mestu máli, að Jóni Ásgeiri og endurskoðendunum tveimur hefði ekki gefist fyrir dómi kostur á að koma fram skýringum og afstöðu sinni til þess hvort einstakar færslur varði lán í skilningi laga og eftir atvikum hvort einhverjar gætu hafa verið undanþegnar tilgreiningarskyldu samkvæmt ákvæðinu. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Jóns Ásgeirs, Stefáns og Önnu af þessum sakargiftum.

Ekki útilokað að aðrir hafi gert mistök
Jóni Ásgeiri var einnig gefið að sök, að hafa brotið gegn tollalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa við innflutning bifreiðar í nafni Baugs gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning.

Hæstiréttur segir, að þótt lagt væri til grundvallar að Jóni Ásgeiri hefði verið kunnugt um, að greiðslur vegna bifreiðarinnar hefðu numið hærri fjárhæð en sem tilgreind var í þeim reikningi, sem lá til grundvallar aðflutningsskýrslu, væri ekki talið sannað gegn eindreginni neitun hans að hann hefði ákveðið eða lagt á ráðin um hvaða gögn yrðu afhent því félagi, sem sá um gerð skýrslunnar eða skipt sér að öðru leyti af skýrslugerð.

Hæstiréttur taldi ekki nægilega hafið yfir skynsamlegan vafa, að mistök annarra starfsmanna félagsins hefðu ekki valdið því að ranglega hefði verið staðið að verki við samantekt gagna um verð bifreiðarinnar til undirbúnings greiðslu aðflutningsgjalda. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu Jóns Ásgeirs af þessum sakargiftum því staðfest.

Þá var Kristín ákærð fyrir að hafa við innflutning bifreiðar gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning.

Hæstiréttur taldi að ekki væru komin fram viðhlítandi gögn um gangverð bifreiðar, eins og þeirrar sem um ræddi, á þeim stað og tíma sem kaupin voru gerð. Þá væri, þrátt fyrir umtalsverða sönnunarfærslu, talið óljóst hvað ætla mátti að það félag, sem útvegaði Kristínu bifreiðina, kynni að hafa greitt fyrir hana. Að þessu athuguðu var fallist á með héraðsdómi að gegn eindreginni neitun Kristínar hefði ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir þeim sökum sem hún var borin. Var niðurstaða dómsins um sýknu hennar því staðfest.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert