Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár

Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Hlynur Hallsson, og Kolbrún Halldórsdóttir, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa að kosningaaldur verði 16 ár í stað 18 ára.

Í greinargerð með tillögunni segir, að með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og því gert kleift að taka þátt í mótun samfélagsins eins og það eigi réttmæta kröfu á. 16 ára einstaklingur í íslensku samfélagi sé orðinn virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, hafi lokið grunnskóla og ætti að vera tilbúinn til að taka á sig á þá ábyrgð sem felist í því að kjósa sér fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir. Það ætti einnig að vera sjálfsagður réttur þessa unga fólks.

Þá segir, að í nágrannalöndum Íslendinga sé verið að kanna þessi mál og það væri óskandi að Íslendingar tækju frumkvæði í því að auka lýðræði og þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu. Nú þegar hafi 16 ára ungmenni kosningarétt í nokkrum löndum, eins og í Brasilíu, Níkaragúa og á Kúbu. Í Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi hafi 16 ára ungmenni á vinnumarkaði einnig kosningarétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert