Vörubíll stöðvaður eftir ofsaakstur

Vörubíllinn eftir að tókst að stöðva hann á Reykjanesbraut.
Vörubíllinn eftir að tókst að stöðva hann á Reykjanesbraut. mbl.is/Jón Svavarsson

Nokkrir lögreglubílar veittu stórum vörubíl eftirför um austurhluta höfuðborgarsvæðisins í kvöld. Vörubílnum var ekið á ofsahraða og sinnti ökumaðurinn ekki stöðvunarmerkjum eða rauðum umferðarljósum fyrr en um síðir á móts við Vífilsstaðaveg.

Að sögn lögreglunnar var ökumaður bílsins vistaður á geðheilbrigðisstofnun en hafði farið þaðan. Hann hafði unnið hjá Samskipum og vissi hvar nýjar, ótollafgreiddar bifreiðar voru oft geymdar ólæstar og með lyklunum í. Hann fór og sótti sér 10 hjóla dráttarbíl og fór í ökuferð um borgina.

Lögreglumenn í austurborginni sáu númerislausan bílinn í umferðinni og gáfu honum stöðvunarmerki. Dráttarbíllinn jók þá hraðann og var ekið gegn rauðum ljósum á fjórum gatnamótum á allt að 100 km hraða. Lögreglunni tókst að koma einum sinna bíla framfyrir dráttarbílinn og bægja þannig annarri umferð frá. Á síðustu tvennum gatnamótunum sem dráttarbíllinn brunaði í gegnum á fullri ferð voru lögreglumenn staddir til að hleypa dráttarbílnum í gegn áður en tókst að stöðva þennan háskaakstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert