Margrét telur sér ekki fært að starfa lengur í Frjálslynda flokknum

Margrét les yfirlýsingu sína að loknum fundi með stuðningsmönnum sínum.
Margrét les yfirlýsingu sína að loknum fundi með stuðningsmönnum sínum. mbl.is/Golli

Margrét Sverrisdóttir telur sér ekki fært að starfa lengur innan vébanda Frjálslynda flokksins, í ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafi verið nú um helgina á landsþingi flokksins. „Ég er viss um að stuðningsmenn mínir sjá jafn skýrt og ég að flokkurinn yfirgaf mig, en ég ekki hann,“ segir hún í yfirlýsingu í kvöld.

Margrét sendi yfirlýsinguna frá sér í kjölfar fundar sem hún hélt með stuðningsmönnum sínum í kvöld. Í yfirlýsingunni segir Margrét:

„Að undanförnu hafa þingmenn Frjálslynda flokksins og fulltrúar stjórnmálasamtakanna Nýs afls unnið markvisst að því að bola mér úr forystu Frjálslynda flokksins.

Í ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru nú um helgina á landsþingi flokksins er ljóst að ég tel mér ekki fært að starfa lengur innan vébanda hans. Ég er viss um að stuðningsmenn mínir sjá jafn skýrt og ég að flokkurinn yfirgaf mig, en ég ekki hann.

Ég get fullyrt að ég er ekki hætt í pólitík. Frjálslyndi flokkurinn er hins vegar heillum horfinn, eftir að forystumenn hans leiddu Nýtt afl til áhrifa.

Fréttir um að ég hafi nú þegar leitað á önnur mið í pólitík eru úr lausu lofti gripnar. Ég mun í þeim efnum ekkert aðhafast nema í nánu samráði við samherja mína.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert