Forsætisráðherra: Íslenskt efnahagskerfi níðsterkt

Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag. mbl.is/ÞÖK

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að íslenskt efnahagskerfi væri níðsterkt og ástæðan væri sú að það byggi yfir miklum sveigjanleika, staða ríkissjóðs væri sterk og hefði stórlega batnað á síðustu árum og Íslendingar byggju við gríðarlega traust og efnað lífeyrissjóðakerfi.

Rætt var utan dagskrár um stöðu efnahagsmála að ósk Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Gagnrýni hún efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar harðlega og vísaði m.a. í ummæli Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, um að hér hefði á undanförnum misserum, verið látið reyna á efnahagsforsendur, sem aðrir hefðu ekki þorað að láta reyna á. Sagði hún að Davíð hefði ekki útilokað mjúka lendingu hagkerfisins en forsenda þess væri að útgjaldaáform yrðu ekki þanin um of.

Ingibjörg sagði, að Jónas Haralz, hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri, hefði tekið í sama streng og talað um að hrapaleg mistök hefðu verið gerð á íbúðalánamarkaði.

Ingibjörg Sólrún spurði Geir síðan hvort ríkisstjórnin hefði mótað stefnu til að koma í veg fyrir harða lendingu í hagkerfinu og hvernig hún ætli að bregðast við aukinni greiðslubyrði heimilanna.

Aldrei efast um að lendingin yrði mjúk
Geir H. Haarde sagði, að afkomutölur bankanna, sem birtust í dag, væru m.a. vitnisburður um þau skilyrði sem efnahagslífið byggi við. Þessi góða afkoma myndi m.a. skila sér í skattgreiðslum til ríkissjóðs.

Geir sagði að miklar framkvæmdir hefðu leitt til ákveðinnar spennu og reynt á þanþolið í efnahagskerfinu. Nú væri þjóðin komin fyrir vind í þessum efnum, hagkerfið væri að kasta mæðinni og það rólegt framundan. Geir sagði, að skuldir tiltekinna hópa hefðu aukist en einnig yrði að taka tillit til þess hve eignir þeirra hafa aukist.

Geir sagði, að hann hefði aldrei efast um að Íslendingar myndu standast það þensluástand, sem stóriðjuframkvæmdirnar ollu, og lendingin yrði mjúk. Nú væri þenslan á undanhaldi, gert væri ráð fyrir lækkandi verðbólgu, að hratt dragi úr viðskiptahalla og hagvöxtur taki við sér á ný á næsta ári vegna aukins útflutnings. Efnahagsstefnan hefði skotið styrkari stoðum undir hagkerfið.

Voru það hagstjórnarmistök, spurði Geir, að búa þannig um hnútana að ríkissjóður gæti lækkað skatta og séð af miklum fjármunum til að bæta kjör aldraðra, lækka virðisaukaskatt, lækka og fella niður eignaskatt og hækka barnabætur um 60%? Sagði forsætisráðherra að afkoma ríkissjóðs hefði aldrei verið betri en nú og það væri ástæðan fyrir því að hægt var að ráðast í kjarabætur af þessu tagi.

Stóriðjustefnan rót vandans
Þuríður Backman, þingmaður VG, sagði að rótin að hinum mikla undirliggjandi vanda heimilanna, sem við blasti vegna hárra vaxta og verðtryggingar, lægi í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Ekkert myndi slakna á þenslunni ef ríkisstjórnin setti ekki nú þegar stopp og kæmi í veg fyrir væntingar um frekari stóriðju.

Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði að ríkisstjórnin hefði lýst því yfir fyrirfram að þensla yrði á kjörtímabilinu vegna stóriðjuframkvæmda. Þá hefðu viðskiptabankarnir sett af stað meiri þenslu vegna umsvifa á íbúðalánamarkaði og meiri útrásar en gert væri ráð fyrir. Hins vegar hefði krónan staðið sig vel og Íslendingar ættu sjálfir að ákveða tímasetningar í efnahags- og gjaldeyrismálum. Varaði Jón við, að menn vanmeti mikilvægi orkumála, sterkra banka og viðskiptalífs. Sagði hann bjartar horfur fyrir efnahagsmál á þessu ári og þær staðfestu árangur stjórnarstefnunnar svo ekki verði um villst.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að á síðasta sumri hefðu verið gerð alvarleg mistök í efnahagsmálum þegar reynt var að blása lífi í Framsóknarflokkinn með auknum fjárútlátum eftir að Halldór Ásgrímsson hraktist frá völdum. Auka fjárútlát eingöngu í prófkjörsbaráttu. Sagði Sigurjón að gríðarlegur vaxtakostnaður, sem bitnaði á heimilunum, væri eingöngu verk stjórnarflokkanna.

Mistökin birtast í 10 atriðum
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að hagstjórnarmistök stjórnarinnar birtust í 10 atriðum: Misskiptingu tekna og eigna, fjölskyldur borgi himinháan verðbólguskatt, skattbyrði hafi aukist, 5000 íslensk börn væru skilin eftir í fátækt og þriðji hver eldri borgari, haldið væri í ónýtan gjaldmiðil og stjórnvöld neituðu að horfast í augu við gildi þess að ganga í Evrópusambandið, íslenskur almenningur borgaði hæsta matvælaverð, lyfjaverð, vexti, og húsnæðisverð en flestar aðrar þjóðir, ríkiskassinn hefði 73% meiru úr að spila nú en 1995 en þjónustan hefði ekki aukist um 73%, skuldir Íslendinga hefðu aldrei verið eins háar, hagvöxtur væri neikvæður á tilteknum landssvæðum og fullkomin óstjórn væri á ríkisfjármálum.

250 þúsund krónum meira í afborganir og vexti á ári
Ingibjörg Sólrún sagði í lok umræðunnar, að Geir hefði ekki svarað því hvernig ríkisstjórnin hygðist takast á við aukna greiðslubyrði heimilanna vegna hækkandi vaxta og verðbólgu. Svo virtist, sem forsætisráðherra hefði meiri skilning á því þjóðarbúi, sem birtist í reikningum bankanna en í reikningum fjölskyldnanna. Sagði Ingibjörg Sólrún, að fjölskyldurnar í landinu væru að borga 250 þúsund krónum meira í afborganir og vexti en á síðasta ári, bara vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að íslenskar verkakonur vinni nú 5 vinnustundum fleiri en danskar, en 2 stundum meira árið 1995. Þetta segði sína sögu um hvernig búið væri að heimilunum í landinu.

Geir H. Haarde sagði að stjórnarandstaðan hefði uppi hræðsluáróður og ræða Ágústs Ólafs Ágústssonar væri helsta birtingarmyndin á því. Allt væri hins vegar á misskilningi byggt, sem Samfylkingin héldi fram í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert