Skora á Hafnfirðinga að fella tillögu um deiliskipulag

Vinstri græn í Hafnarfirði segjast munu berjast gegn samþykkt nýs deiliskipulags því fyrirhuguð íbúakosning sé í raun um stækkun álvers Alcans í Straumsvík en ekki deiliskipulag. Því segist VG í Hafnarfirði skora á alla Hafnfirðinga að fella tillöguna um deiliskipulagið til að koma í veg fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.

Í tilkynningu frá VG í Hafnarfirði kemur fram, að á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag hafi bæjarfulltrúi flokksins greitt atkvæði gegn sameiginlegri tillögu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að auglýsa deiliskipulagstillögu Arkís fyrir hönd álbræðslunnar í Staumsvík.

Í atkvæðaskýringu sagði bæjarfulltrúinn að Vinstri græn firri sig ekki þeirri ábyrgð, að hafa tekið þátt í þeirri vinnu, sem lúti að auknum mengunarvörnum innan marka bæjarins vegna hugsanlegrar stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Með þátttöku í starfshópi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar fari hins vegar fjarri að Vinstri græn hafi þar með samþykkt deiliskipulagið eða beri á nokkurn annan hátt ábyrgð á deiliskipulagstillögunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert