Töpuðu tugum milljóna til svindlara

Þrátt fyrir talsverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum um svonefnd Nígeríusvikabréf berast alltaf öðru hvoru kærur til lögreglunnar vegna mála þar sem fólk hefur tapað miklum fjármunum við að lenda í svikamyllum af þessu tagi. Þannig hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú t.d. borist kæra frá manni, sem telur sig hafa tapað um 10 milljónum króna og vitað er að fleiri aðilar á Íslandi hafa tapað fjármunum vegna sama máls.

Að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, er um að ræða mann, sem fékk tilboð um að hann fengi hluta af arfi manns, sem látist hefði í Senegal gegn því að hann legði fram fjármuni sem yrðu notaðir til að kaupa ýmis leyfisbréf svo hægt væri að fá arfinn greiddan út.

Maðurinn millifærði fé inn á banka í Madrid á Spáni en fékk alltaf þau boð, að meiri fjármuna væri þörf. Áður en yfir lauk hafði maðurinn greitt um 10 milljónir íslenskra króna inn á reikninginn án þess að arfhlutinn skilaði sér og þeir sem maðurinn var í samskiptum við eru horfnir sporlaust. Maðurinn sagðist vita af fleiri Íslendingum, sem hefðu fengið samskonar tilboð og látið tilleiðast að senda peninga til Spánar. Segir Ómar Smári að áætla megi að um 20 milljónir króna hafi farið héðan inn á reikninginn.

Ómar Smári segir, að um sé að ræða alþjóðlega svikastarfsemi, sem torvelt sé að rekja en peningarnir eru horfnir af bankareikningnum í Madrid. Fólki sem berst slík gylliboð er ráðlagt að hunsa þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert