„Biblía 21. aldarinnar“

Hvorugkyn kemur í stað karlkyns þar sem því verður við komið í nýrri íslenskri þýðingu á Biblíunni sem væntanlega kemur út með haustinu. Biblían mun koma út í tveimur stærðum en með margvíslegu útliti, bæði íburðarmiklar útgáfur og einfaldari til almennra nota.

Þetta verður ellefta útgáfa Biblíunnar á íslensku, en hún var síðast gefin út 1981 en þá var ekki um nýja heildarþýðingu að ræða.

Margir hafa lagt hönd á plóg við þýðinguna, en stefnt hefur verið að því frá upphafi að þýða eftir frumtexta í báðum testamentum. Kapp var lagt á að vanda málfar og leitast hefur verið við að taka tillit til stíls frumtexta, einkum í Gamla testamentinu, án þess að sú viðleitni komi niður á íslenskri gerð textans.

Sú þýðing Biblíunnar sem nú er að mestu notast við kom út árið 1912. Biblíufélagið, sem fram til þessa hefur annast útgáfu Biblíunnar, samdi á síðastliðnu ári við JPV um útgáfuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert