Ráðist í breikkun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar út frá Reykjavík

Gert er ráð fyrir umtalsverðum vegaframkvæmdum í nýrri samgönguáætlun.
Gert er ráð fyrir umtalsverðum vegaframkvæmdum í nýrri samgönguáætlun. mbl.is/Rax

Í samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2010, sem lögð var fram á Alþingi í dag, er miðað við að haldið verði áfram breikkun umferðarmestu vega með aðskilnaði akstursstefna. Í því skyni verði ráðist í breikkun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar út frá Reykjavík. Ekki er í áætluninni fjallað nánar um þessar framkvæmdir en þar er gert ráð fyrir að um 3 milljörðum verði varið árlega til framkvæmda við Suðurlandsveg á Vesturlandsveg á árunum 2008 til 2010 og fjárins verði aflað með sérstakri fjáröflun.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði þegar hann var spurður um ástæður þess að ekki er tekin afstaða til þess í samgönguáætluninni hvort breikkun Suðurlandsvegar frá Reykjavík og breikkun Vesturlandsvegar verði 2+1 vegur eða 2+2 sagði hann:

„Það kemur fram varðandi fjármögnun þessara verka með sérstakri fjáröflun, að við gerum ráð fyrir að vegurinn austur fyrir fjall verði tvöfaldaður. Þá verði vegurinn upp úr Mosfellsbæ sömuleiðis og upp á Kjalarnesi frá Sundabrautarmörkunum í tímans rás tvöfaldaður með sama hætti og vegurinn til Selfoss."

Í fjögurra ára áætluninni segir, að stefnt skuli að því að götur og vegir verði gerð öruggari, m.a. með endurskoðun staðla, bættri öryggishönnun, aðskilnaði bílaumferðar og óvarinna vegfarenda þar sem umferðin er mest og fækkun hættulegra staða í vegakerfinu. Við endurskoðun staðla verði sérstaklega hugað að breidd vega, ekki síst á þeim vegum þar sem umferð þungra bíla er mest.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert