Króníkan kemur út á morgun

Arna Schram, aðstoðarritstjóri (t.v.), Valdimar Birgisson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir …
Arna Schram, aðstoðarritstjóri (t.v.), Valdimar Birgisson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir kíkja á nýprentaða Króníkuna í prentsmiðju Morgunblaðsins á fjórða tímanum í dag. mbl.is/Júlíus

Fyrsta tölublað fréttatímaritsins Króníkunnar kemur út á morgun, en að því stendur útgáfufélagið Fréttir ehf, en það er í eigu ritstjórans, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur og eiginmanns hennar, Valdimars Birgissonar. Útgáfan er að sögn Sigríðar Daggar fjármögnuð með lánsfé frá ýmsum fjársterkum aðilum, m.a. Björgólfi Guðmundssyni, kaupsýslumanni.

Sigríður var kampakát með blaðið þegar mbl.is hafði samband við hana nú síðdegis, enda Króníkan nýkomin úr prentvélunum og ilmurinn eftir því. Króníkan kemur út vikulega og verður seld á öllum lausasölustöðum á landinu sem á annað borð selja tímarit og dagblöð. Eintakið kostar 650 kr. í lausasölu.

Sigríður segir Björgólf hafa tekið þátt í útgáfunni þar sem hann hafi viljað styrkja kraftmikla nýsköpun og hafi séð „frumherjakraftinn“ í útgefendum, eins og hann hafi orðað það sjálfur. Hvað hina fjársterku aðilana varðar segir Sigríður þar ýmsa vini og velunnara á ferð, sem verði ekki nafngreindir að svo stöddu.

Meðal efnis í fyrsta tölublaði Króníkunnar er viðtal við Hannes Smárason, forstjóra FL Group, fjallað um sjóræningjaveiðar í Barentshafi, rætt við leikarann og leikstjórann Gísla Örn Garðarsson og nýkarlmennskan krufin til mergjar, svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert