Skákakademía Reykjavíkur stofnuð

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sést hér tefla á skákmóti …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sést hér tefla á skákmóti á síðasta ári.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að sett verði á laggirnar sjálfseignarstofnun, Skákakademía Reykjavíkur, sem vinni að eflingu skáklistarinnar í borginni með það að markmiði að Reykjavík verði orðin Skákhöfuðborg heimsins árið 2010.

Skákakademía Reykjavíkur annist stefnumótun og framkvæmd í samráði við Skáksamband Íslands, skákfélögin í Reykjavík, grunnskóla í borginni, félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki.

Framlag Reykjavíkurborgar til undirbúnings og stofnunar Skákakademíu Reykjavíkur verði kr. 3.000.000 en leitað verði þátttöku annarra þannig að heildarstofnfé nemi um kr. 20.000.000.

Þá samþykkir borgarráð að verkefnisstjóri verði ráðinn til 6 mánaða til þess að undirbúa stofnun Skákakademíu Reykjavíkur ásamt starfshópi skipuðum fulltrúum menntaráðs og ÍTR, fulltrúa frá Skáksambandi Íslands og einum stórmeistara. Borgarstjóra verði falið að ráða verkefnisstjóra, skipa starfshópinn og leita eftir stofnframlögum frá samtökum og fyrirtækjum.

Mikil skákvakning hefur orðið á Íslandi síðustu ár, einkum meðal barna, og er það mikið fagnaðarefni, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Skákakademíu Reykjavíkur er ætlað að ýta enn frekar undir þá þróun enda einsýnt að skákiðkun meðal barna og ungmenna hefur ótvírætt forvarnagildi og er líkleg til þess að efla þroska og heilbrigð lífsviðhorf. Hlutverk Skákakademíu Reykjavíkur verður að byggja upp skáklíf í Reykjavík með sérstakri áherslu á skóla borgarinnar en auk þess að standa árlega að Skákhátíð Reykjavíkur þar sem hápunktur vikunnar verði Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið sem héðan í frá verði haldið árlega en ekki á tveggja ára fresti eins og verið hefur frá 1964.

Hlutverk verkefnisstjóra verður að undirbúa stofnun Skákakademíu Reykjavíkur í samvinnu við starfshóp, leita eftir samstarfi við taflfélög, grunnskóla, kennara og foreldrafélög og koma á samvinnu atvinnulífs og Reykjavíkur auk þess að undirbúa Skákviku Reykjavíkur 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert