Skarð rofið í Þjóðhátíðarlundinn án vitneskju borgaryfirvalda

Verktakar styttu sér leið í gegn um þjóðhátíðarlundinn í Heiðmörk og rufu þar stórt skarð í lundinn í stað þess að fylgja vegi skammt frá eins og gert var ráð fyrir í umsókn um framkvæmdaleyfi. Þá hófu verktakarnir framkvæmdir í landi Reykjavíkur án þess að framkvæmdaleyfi hefði verið veitt.

Þjóðhátíðarlundur var gróðursettur árið 1974 til þess að minnast 1100 ára Íslandsbyggðar, auk 75 ára skógræktar í landinu. Lundurinn samanstendur aðallega af stafafuru, en við hlið hans eru stórar og sléttar grasflatir.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að Orkuveita Reykjavíkur hefði sent skipulagsfulltrúa Reykjavíkur umsögn vegna framkvæmdaleyfis til handa Kópavogsbæ vegna lagninga vatnsleiðslu um Heiðmörk. Í umsögninni er kvartað undan umgengni verktaka á svæði OR í Heiðmörk og segir að landi hafi verið raskað mun meira en þörf hafi verið á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert