24 ökumenn teknir ölvaðir um helgina

Tuttugu og fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fjórtán voru stöðvaðir í Reykjavík, sex í Kópavogi og fjórir í Hafnarfirði. Flestir voru teknir aðfaranótt sunnudags, eða níu. Þetta voru tuttugu karlmenn og fjórar konur.

Lögreglan segir, að elsta konan sé á sextugsaldri en sú yngsta 18 ára, hinar eru báðar á þrítugsaldri. Meirihlutanna karlanna sé á þrítugsaldri en sá yngsti er 17 ára. Sá fékk bílpróf fyrir fáeinum mánuðum en hann var tekinn í Árbænum aðfaranótt laugardags. Með honum í bílnum voru þrjú önnur ungmenni sem eru 15 og 16 ára.

Pilturinn var færður á lögreglustöð og þar var hringt í móður hans. Hún var lögreglunni mjög þakklát og sagði að nú væri nóg komið. Hér eftir fengi sonurinn ekki að snerta bílinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert