Erlendir fjölmiðlar fjalla um klámráðstefnu

Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið.
Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið.

Fjölmiðlar á Norðurlöndum hafa fjallað um klámþingið sem haldið verður í Reykjavík 7. til 11. mars. Fréttavefir danska blaðsins Politiken og norska blaðsins Aftenposten hafa sagt frá því að Vilhjálmur Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, harmi að Reykjavík verði vettvangur starfsemi sem brjóti hugsanlega í bága við íslensk lög. Þá segir fréttastofan AFP að ef einhverjir þeirra sem taki þátt í ráðstefnunni hafi verið dæmdir fyrir kynferðisbrot verði þeim meinaður aðgangur að landinu.

Í fréttunum er fjallað í stuttu máli um þá umræðu sem staðið hefur yfir á landinu að undanförnu vegna ráðstefnunnar. Segir m.a. að allt að 150 manns sem starfi í klámiðnaðinum hyggist koma hingað til að funda og kynnast, en að ekki hafi þurft að sækja um nein leyfi þar sem ferðin sé auglýst sem frí á vegum einkaaðila.

Einnig segir í fréttunum að borgaryfirvöld hafi brugðist við bréfi frá upplýsinga- og ráðgjafarmiðstoð fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis (Stígamótum), og að borgaryfirvöld vilji koma í veg fyrir að klámiðnaðurinn nái fótfestu í landinu.

Franska fréttastofan AFP segir svo að Vilhjálmur hafi beðið lögreglu að rannsaka alla skráða þátttakendur til að tryggja að enginn sem sæki ráðstefnunni tengist sölu á barnaklámi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert