Ómögulegt að flokka ferðamenn

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna mikillar fjölmiðlaumræðu um samkomuna „Snow Gathering”, sem áformað var að halda á Íslandi nú í marsmánuði, og þeirrar ákvörðunar eigenda Hótels Sögu að vísa þátttakendum frá. Í yfirlýsingunni segir:

„Þrátt fyrir óbeit sem fólk kann að hafa á klámiðnaði og annarri starfsemi sem fólk stundar löglega í heimalandi sínu en er bönnuð á Íslandi, er vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geti meinað því fólki að koma í skemmtiferð til Íslands. Það koma rúmlega 400 þúsund ferðamenn árlega til Íslands, þeir eru ekki yfirheyrðir um störf sín heima við enda ógerlegt. Samkvæmt dagskrá þessarar umræddu samkomu ætlaði fólkið að vera í skipulögðum skoðanaferðum allan tímann. Ljóst er að ómögulegt er fyrir fyrirtækin að flokka gesti sína í æskilega og óæskilega gesti hafi engin lögbrot verið framin.

Frávísun hópa, sem engin lög hafa brotið, er alvarlegt mál sem getur leitt til skaðabóta enda um mikil viðskipti að ræða fyrir mörg fyrirtæki hér á landi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert