Vilja að farið verði í vegaframkvæmdir fyrir 22 milljarða til ársins 2010

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæði vilja að vegaframkvæmdir verði fyrir 22 milljarða …
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæði vilja að vegaframkvæmdir verði fyrir 22 milljarða á næstu árum. mbl.is/ÞÖK

Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fara þess á leit við samgöngunefnd Alþingis að hún taki til endurskoðunar þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir fyrir árin 2007-2010 og 2007-2018. Segja þeir að komi tillögurnar til framkvæmda óbreyttar sé ljóst að í mikið óefni stefni í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.

Á ályktun, sem samþykkt var á stjórnarfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í dag, er vísað til nýlegar úttektar bæjarverkfræðinga sveitarfélaganna og í samræmi við þá úttekt leggja sveitarfélögin til að til ársins 2010 verði farið í vegaframkvæmdir á svæðinu fyrir tæpa 22 milljarða. Segja sveitarfélögin, að auk þess vanti 2 milljarða til að ljúka framkvæmdum sem þegar eru hafnar.

Lagt er til að umfangsmestu framkvæmdirnar verði við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, vegstokka á Miklubraut á milli Snorrabrautar og Kringlumýrarbrautar, á Hafnarfjarðarvegi við Vífilsstaðaveg og á Mýrargötu. Einnig verði gerður Ofanbyggðavegur í Hafnarfirði á milli Kaldárselsvegar og Krísuvíkurvegar, haldið áfram með breikkun Vesturlandsvegar til norðurs og lagning Sundabrautar verði hafin.

Helstu framkvæmdir sem lagt er til að farið verði í á árunum 2011-2014 eru auk Sundabrautar gerð Hlíðarfótar/Öskjuhlíðarganga auk vegstokks og mislægra gatnamóti á Reykjanesbraut í Hafnarfirði á milli Álftanesvegar og Lækjargötu. Alls er lagt til að tæpum 17 milljörðum króna verði varið til framkvæmda á svæðinu á þessum árum.

Á síðasta tímabilinu, þ.e. 2015-2018 er lagt til að farið verði í framkvæmdir fyrir um 16 milljarða króna. Um er að ræða frekari endurbætur á helstu stofnleiðum ásamt gerð Kópavogsganga og fl. Fjármögnun Sundabrautar er utan þessa ramma.

„Umferð á helstu stofnleiðum verður eftir aðeins 5-10 ár um og yfir flutningsgetu þeirra sem þýðir miklar tafir á umferð, langar biðraðir, aukna slysahættu í íbúðahverfum og verulega skert lífsgæði íbúa svæðisins. Þjóðvegaumferð er nú þegar langmest á höfuðborgarsvæðinu og slys tíðust þar eins og kemur fram í framlagðri þingsályktunartillögu til samgönguáætlunar 2007-2010," segir m.a. í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert